Keflavík - Stjarnan á sunnudag kl. 18:00
Á sunnudag er komið að enn einum úrslitaleiknum í Pepsi-deildinni en þá koma Stjörnumenn í heimsókn í 18. umferð deildarinnar. Leikurinn verður á Nettó-vellinum í Keflavík og það er rétt að benda sérstaklega á að leikurinn hefst kl. 18:00. Fyrir leikinn er Keflavík í 8.-9. sæti deildarinnar með 17 stig en Stjarnan er í 3. sæti með 34 stig. Þetta verður því væntanlega hörkuleikur tveggja liða sem vilja styrkja stöðu sína í deildinni, okkar menn reyndar á botninum en gestirnir í toppbaráttunni. Dómari leiksins verður Garðar Örn Hinriksson, aðstoðardómarar Áskell Þór Gíslason og Estanislao Plantada Siurans og eftirlitsmaður KSÍ verður Ólafur Kjartansson. Þess má geta að leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Keflavík og Stjarnan hafa leikið 17 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1994. Keflavík hefur unnið sjö leiki en Stjarnan fimm og fimm sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 26-22 fyrir Keflavík. Jóhann Birnir Guðmundsson hefur skorað fimm mörk gegn Stjörnunni í efstu deild, Hörður Sveinsson fjögur og Einar Orri Einarsson og Magnús Þórir Matthíasson eitt mark hvor.
Liðin léku fjóra leiki í B-deildinni, árin 1992 og 2003. Keflavík vann tvo þessara leikja og Stjarnan einn en einum leik lauk með jafntefli. Markatalan er 8-6 fyrir Keflavík. Einn núverandi leikmaður Keflavíkur hefur skorað í leikjum liðanna í næstefstu deild en það er Magnús Þorsteinsson.
Keflavík og Stjarnan hafa aðeins einu sinni mæst í bikarkeppni KSÍ en það var árið 2008. Þá vann Keflavík 2-1 á heimavelli í 32 liða úrslitum keppninnar. Magnús Þorsteinsson skoraði fyrir Keflavík í þeim leik.
Liðin mættust fyrr í sumar í Pepsi-deildinni og þá á Samsung-vellinum í Garðabæ. Stjörnumenn unnu þann leik og gerði Ólafur Karl Finsen eina mark leiksins.
Nokkrir leikmenn hafa leikið með bæði Keflavík og Stjörnunni í gegnum árin, m.a. Adolf Sveinsson, Kristinn Guðbrandsson, Helgi Björgvinsson og markmennirnir Bjarki Freyr Guðmundsson og Magnús Þormar. Nú leikur Grétar Atli Grétarsson með okkar liði en hann er uppalinn Stjörnumaður og ekki má gleyma að aðstoðarþjálfarinn Þorkell Máni Pétursson þjálfaði á sínum tíma kvennalið Stjörnunnar.
Úrslit í leikjum Keflavíkur og Stjörnunnar í Keflavík hafa orðið þessi:
2012 | Keflavík - Stjarnan | 0-1 | |
2011 | Keflavík - Stjarnan | 4-2 |
Jóhann Birnir Guðmundsson 2 Hilmar Geir Eiðsson Guðmundur Steinarsson |
2010 | Keflavík - Stjarnan | 2-2 | Hörður Sveinsson 2 |
2009 | Keflavík - Stjarnan | 1-1 | Hörður Sveinsson |
2003 | Keflavík - Stjarnan (B-deild) | 5-3 |
Stefán Gíslason 2 Magnús Þorsteinsson Adolf Sveinsson Hafsteinn Rúnarsson |
2000 | Keflavík - Stjarnan | 1-0 | Guðmundur Steinarsson |
1997 | Keflavík - Stjarnan | 2-1 |
Eysteinn Hauksson Haukur Ingi Guðnason |
1996 | Keflavík - Stjarnan | 0-1 | Jóhann B. Guðmundsson |
1994 | Keflavík - Stjarnan | 4-1 |
Ragnar Margeirsson 2 Kjartan Einarsson Sverrir Þór Sverrisson |
1992 | Keflavík - Stjarnan (B-deild) | 1-0 | Marco Tanasic |