Keflavík - Þór A. í VISA-bikarnum
Þór Akureyri mun heimsækja okkur Keflvíkinga á morgun, sunnudag í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins. Leikurinn hefst kl. 14:00 á Sparisjóðsvellinum. Þórsarar slógu út Víking Ólafsvík í 32 liða úrslitum á meðan Keflavík vann Einherja frá Vopnafirði 2-0. Keflvíkingar voru að koma heim frá Möltu í gær eftir langt ferðalag. Spurning er með þá Hauk Inga og Jóhann Birnir hvort þeir verði orðnir leikhæfir en þeir voru ekki með á Möltu vegna meiðsla. Þá verður Símun Samuelsen í banni. Kristján þjálfari þekkir vel til Þórsara enda þjálfaði hann liðið í nokkur ár.
Nú er bara að mæta á völlinn á morgun og styðja strákana eins og þið hafið gert svo vel í sumar. Strákarnir eru staðráðnir að standa sig í bikarnum og með góðum stuðningi og góðum leik ætti það að takast og tryggja okkur í 8 liða úrslitin.
Kristján þjálfari var í viðtali á fotbolti.net þegar dregið var í 16.liða úrslitin og birtum við það hér með leyfi þeirra.
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur mun mæta sínum gömlu félögum í Þór í 16-liða úrslitum VISA-bikars karla en þetta varð ljóst eftir að dregið var í hádeginu í dag.
Hér að neðan má sjá hvað Kristján hefur að segja um leikinn.
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur:
,,Það eru ekki margir leikmenn eftir í Þórs liðinu frá því að ég var þarna en það eru þó tveir jálkar, Afi er þarna ennþá og Óðinn (Árnason) er kominn þarna til baka þannig að þetta verður skemmtilegt."
,,Ég er búinn að sjá Þórsliðið spila tvo leiki. Þeir leggja upp úr sterkum varnarleik og eru með unga og mjög spennandi stráka sem verður gaman að glíma við. Eldri leikmennirnir, afi og fleiri vilja pottþétt sýna sig svakalega á móti gamla kallinum."