Keflavík - Þróttur er Atlantsolíu-leikurinn
Heimaleikur Keflavíkur gegn Þrótti nk. sunnudag kl. 18:00 verður Atlantsolíu-leikurinn. Atlantsolía er í herferð á Suðurnesjum og vildi taka þátt í þessum leik með okkur og kunnum við þeim þakkir fyrir það. Í hálfleik verður dregnir út happdrættisvinningar frá fyrirtækinu og eru bensínávísanir í verðlaun.
Leikurinn skiptir Keflavíkurliðið máli í toppbaráttunni og aðeins sigur kemur til greina hjá liðinu. Allir leikmenn utan Stefán Arnarson eru heilir og mikil barátta um stöður í liðinu. Okkar leikmenn vekja athygli erlendra liða og eru þeir kumpánar Hörður Sveinsson og Guðmundur Steinarsson báðir á heimleið í dag, fimmtudag, eftir að hafa dvalið hjá liðum í Noregi og Danmörku frá því um helgi.
Við vonumst til að stuðningsmenn liðsins fjölmenni á völlinn og styðji liðið á lokasprettinum í Landsbankadeildinni. Við eigum frábæra stuðningsmenn sem sást best á mætingunni á Evrópuleikinn á móti Etzella á Laugardalsvelli. Fimmtudagskvöldið fyrir Verslunarmannahelgi mættu 852 áhorfendur og kom sá fjöldi mörgum spekingnum á óvart. Við stefndum að mikilli fjölgun áhorfenda á heimavelli í sumar sem þóttu bjartsýnar spár en með góðum endaspretti náum við jafnvel að fjölga meðaltalsaðsókn milli ára um 35% en ekkert annað lið getur státað að viðlíka fjölgun áhorfenda. ási