Keflavík - Valletta á fimmtudag kl. 19:15
Keflavík og Valletta frá Möltu leika seinni leik sinn í undankeppni Evrópudeildar UEFA fimmtudaginn 9. júlí. Leikurinn fer fram á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og hefst kl. 19:15. Fyrri leiknum lauk með 3-0 sigri Valletta á heimavelli sínum.
Það er ljóst að það verður á brattann að sækja gegn Maltverjum í seinni leiknum. Okkar menn eru þó á því að úrslitin í fyrri leiknum gefi ekki rétta mynd af styrk liðanna enda voru aðstæður okkur ekki í vil. Leikið var á gervigrasi í 30 stiga hita og svo voru helv... dómararnir á móti okkur! Með samstilltu átaki ætti Keflavíkurliðið að geta velgt gestum okkar undir uggum, ekki síst með góðum stuðningi áhorfenda.
Dómarar leiksins koma að þessu sinni frá Wales. Dómari verður Mark Whitby, aðstoðardómarar þeir Philip Bates og Kim Fisher og fjórði dómari er Andrew Harms. Eftirlit með dómurum hefur Jens Larsen frá Danmörku en eftirlitsmaður UEFA er Rainer Koch frá Þýskalandi.