Fréttir

Keflavík - Valur á sunnudag kl. 19:15
Knattspyrna | 17. ágúst 2013

Keflavík - Valur á sunnudag kl. 19:15

Sunnudaginn 18. ágúst er komið að leik gegn Val í í 16. umferð Pepsi-deildarinnar.  Leikurinn fer fram á Nettó-vellinum í Keflavík og hefst kl. 19:15.  Fyrir leikinn er Keflavík í 11. sæti deildarinnar með 10 stig en Valur er í 5. sæti með 24 stig.  Það þarf ekki að taka fram að okkar menn berjast fyrir sæti sínu í deildinni og hvert stig getur ráðið úrslitum í þeirri baráttu.  Dómari leiksins verður Örvar Sær Gíslason, aðstoðardómarar þeir Jóhann Gunnar Guðmundsson og Bryngeir Valdimarsson og eftirlitsmaður KSÍ er Guðmundur Sigurðsson.

Keflavík og Valur hafa leikið 92 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1958 þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli.  Þess má geta að Sigurður Albertsson skoraði mark Keflavíkur í þeim leik.  Keflavík hefur unnið 30 leikjanna, Valur hefur hins vegar sigrað 36 sinnum en 26 leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 132-146, Val í hag.  Stærsti sigur Vals í leikjum liðanna var 7-1 sigur á Hlíðarenda árið 1987 og það er jafnframt mesti markaleikur sem liðin hafa háð ásamt 4-4 jafntefli í Keflavík árið 1999 og 5-3 sigri Keflavíkur árið 2008.  Stærstu sigrar Keflavíkur hafa verið með fjögurra marka mun, tveir 4-0 sigrar árið 1973 og 5-1 sigur árið 1964.  Fjórir leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Val; Hörður Sveinsson hefur skorað fjögur mörk og þeir Ísak Örn Þórðarson, Jóhann Birnir Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson hafa skorað eitt mark hver.

Liðin hafa mæst sex sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1970 en síðast árið 1997.  Keflavíkur hefur unnið 4 leiki en Valur 2; markatalan þar er 13-8 fyrir Keflavík.  Jóhann B. Guðmundsson hefur skorað þrjú bikarmörk gegn Val en þau komu öll í 5-1 sigri í framlengdum leik árið 1997.  Leikurinn var í 8 liða úrslitum en Keflavík varð einmitt bikarmeistari þetta ár.

Okkar menn riðu ekki feitum hesti frá fyrri leik liðanna í sumar en hann fór fram að Hlíðarenda.  Valsmenn unnu 4-0 þar sem Rúnar Már Sigurjónsson skoraði tvö mörk og Haukur Páll Sigurðsson og Kolbeinn Kárason eitt hvor.

Nokkrir leikmenn hafa leikið fyrir Keflavík og Val í gegnum árin og í vetur gekk Halldór Kristinn Halldórsson til liðs við okkur frá Val..  Áður höfðu m.a. Hörður Sveinsson, Guðmundur Viðar Mete, Jakob Már Jónharðsson, Adolf Sveinsson, Bjarni Sigurðsson, Sigurjón Kristjánsson og Hafsteinn Guðmundsson leikið fyrir bæði liðin.  Þá hafa þessi lið ekki síður haft sömu þjálfara en Óli B. Jónsson, Guðbjörn Jónsson, Ian Ross, Ingi Björn Albertsson, Willum Þór Þórsson og Kristján Guðmundsson hafa allir þjálfað bæði lið.

Úrslit í leikjum Keflavíkur og Vals á heimavelli okkar hafa orðið þessi undanfarin ár:

2012 Keflavík - Valur 0-4  
2011 Keflavík - Valur 0-2  
2010 Keflavík - Valur 3-1 Hörður Sveinsson 2
Andri Steinn Birgisson
2009 Keflavík - Valur 3-0 Hörður Sveinsson 2
Guðjón Árni Antoníusson
2008 Keflavík - Valur 5-3 Guðmundur Steinarsson 2
Hans Mathiesen
Símun Samuelsen
Guðjón Árni Antoníusson
2007 Keflavík - Valur 1-3 Símun Samuelsen
2006 Keflavík - Valur 1-1 Guðmundur Steinarsson
2005 Keflavík - Valur 1-5 Stefán Örn Arnarson
2001 Keflavík - Valur 1-1 Magnús Þorsteinsson
1999 Keflavík - Valur 4-4 Kristján Brooks 2
Karl Finnbogason
Marco Tanasic