Fréttir

Keflavík - Víkingur á miðvikudag kl. 19:15
Knattspyrna | 6. ágúst 2013

Keflavík - Víkingur á miðvikudag kl. 19:15

Miðvikudaginn 7. ágúst taka okkar rmenn á móti Víking frá Ólafsvík í 14. umferð Pepsi-deildarinnar.  Leikurinn hefst á Nettó-vellinum kl. 19:15.  Bæði lið eru í blóðugri baráttu á botnsvæðinu og þetta er því sannkallaður sex stiga leikur.  Fyrir leikinn er Keflavík í 11.-12. sæti deildarinnar með stjö stig en Víkingur er í 9.-10. sæti með tíu stig.  Okkar lið hefur reyndar lokið 12 leikjum en önnur lið í neðri hlutanum hafa leikið 13 leiki.  Dómari leiksins verður Þorvaldur Árnason, aðstoðardómarar Áskell Þór Gíslason og Leiknir Ágústsson og eftirlitsmaður KSÍ verður Björn Guðbjörnsson.

Hér komum við venjulega með langa upptalningu á fyrri leikjum Keflavíkur og andstæðinga okkar.  Hún verður þó ekki löng að þessu sinni enda er þetta í fyrsta skipti sem þessi félög leika í sömu deild.  Fyrri leikur liðanna í Ólafsvík var þannig fyrsti deildarleikur liðanna.  Keflavík vann þann leik 3-1 þar sem Jóhann Birnir Guðmundsson skoraði tvö mörk og Magnús Þórir Matthíasson eitt en Björn Pálsson gerði mark Víkings.

Við höfum reyndar leikið gegn Ólafsvíkingum í innimótum og árið 1997 vann U-23 ára lið Keflavíkur sigur á Víking í bikarkeppninni.  Meðal leikmanna Keflavíkur í þeim leik voru Ómar Jóhannsson, Guðmundur Steinarsson og Þórarinn Kristjánsson.  Árið 2000 mætti Keflavík síðan HSH eða Héraðssambandi Snæfellsnes og Hnappadalssýslu í bikarkeppninni en liðin á Snæfellsnesi léku þá saman undir merkjum HSH.  Keflavík vann þann leik 4-0 í Grundarfirði og þar var Haraldur Freyr Guðmundsson á meðal markaskorara.