Keflavík áfram í 3. sæti Landsbankadeildar
Keflavíkurliðið stykti stöðu sína í 3. sæti Landsbankadeildar kvenna með 3-1 sigri á Stjörnunni í gærkvöldi á Keflavíkurvelli. Leikir liðanna hafa oftar en ekki verið spennuþrungnir þar sem þessi tvö lið hafa verið að kljást um 3.-5. sætið. Fyrri leikur liðanna sem fram fór á Stjörnuvelli fyrr í sumar endaði með sigri Stjörnunnar 3-1 og var Keflavíkurliðið staðráðið í því að hefna ófarnna. Í liðið vantaði Donku Podovac sem var að taka út leikbann, Guðný Þórðardóttur sem er enn að vinna sig út úr erfiðum meiðslum en fer að detta vonandi inn og Donnu Cheyne sem er farin til Bandaríkjanna. Þannig að ungu stelpurnar okkar stigu fram og kláruðu verkefnið frábærlega.
Leikurinn var háður við erfiðar aðstæður, völlurinn blautur og þungur. Keflavíkurliðið kom gríðarlega einbeitt til leiks og tilbúið að leggja sig allar fram. Eins og svo oft áður var Vesna Smiljokovic fyrirferðamikil og er með eindæmum hvað leikmenn fá að brjóta ofta á henni og illa áður en dómarar sjá ástæðu til að spjalda leikmenn. Eftir hornspyrnu á 5. mínútu myndaðist þvaga í teig Stjörnustúlkna og barst boltinn til Lilju Írisar Gunnarsdóttur sem skoraði með föstu vinstrifótar skoti óverjandi fyrir Söndru Sigurðardóttur markmann Stjörnunnar, 1-0. Keflavíkurliðið var mjög duglegt og gaman að sjá stelpur eins og Bryndísi Bjarnadóttur og Rebekku Gísladóttur standa sig vel. Áfram héldu liðin að sækja á víxl og úr einni sókn Stjörnunnar komst leikmaður þeirra einn inn fyrir vörn Keflavíkur en Dúfa Ásbjörnsdóttir varði meistaralega með góðu úthlaupi. Það var síðan á 21. mínútu að til tíðinda dróg þegar Anna Rún Jóhanndsóttir sendi glæsilega fyrirgjöf frá hægri og þar stökk Una Harkin hæst allra og skallaði yfir markmann Sjörnunnar, 2-0. Þannig var staðan í leikhléi.
Seinni hálfleikur þróaðist á sama hátt og sá fyrri, liðin skiptust á að sækja. Til tíðinda dróg á 62. mínútu þegar Vesna Smiljokovic fékk sendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar og var keyrð niður eftir að hafa platað varnarmenn Sjörnunnar og vítaspyrna dæmd. Lilja Íris Gunnarsdóttir tók vítið og skoraði örugglega úr, 3-0. Sigur Keflavíkur var því endanlega gulltryggður. Stjörnustúlkur náðu að klóra í bakkann þegar góð sókn þeirra upp hægri kantinn endaði með marki Hörpu Þorsteinsdóttur, 3-1.
Góður sigur á erfiðu liði Sjörnunnar og 3. sætið okkar eftir þessa umferð. Framundan eru leikir við ÍR úti 13. ágúst, Val heima þann 18. og Fjölni í undanúrslitum VISA-bikars heima 21. ágúst. Stíf dagskrá en spennandi.
Lið Keflavíkur: Dúfa, Ester (Anna 18.), Beth, Lilja, Rebekka, Bryndís (Íris Björk 75.), Eva, Björgn Ásta, Björg Magnea, Vesna og Una.
Varamenn: Jelena, Helena, Jóna, Sara.
ÞÞ
Lilja Íris Gunnarsdóttir fyrirliði Keflavíkur skoraði tvo góð mörk í sigri á Stjörnunni.
( Mynd af Vikurfréttavef http//vf.is )