Keflavík Eldri: Öruggur sigur í fyrsta leik
Eldri flokkur Keflavíkur spilaði sinn fyrsta leik á leiktíðinni gegn Valsmönnum að Hlíðarenda í gær. Piltarnir hafa Íslandsmeistaratitil að verja og hófu titilvörnina að sjálfsögðu á sigri. Leikurinn endaði 3-6 eftir að Keflvíkingar höfðu leitt 1-4 í hálfleik. Annar af „nýliðunum“, Sverrir Þór Sverrisson, var á markaskónum og gerði 3 mörk og á án efa eftir að veita Jakobi Má Jónharðssyni harða keppni um markakóngstitilinn í ár. Jakob Már spilaði einungis fyrri hálfleikinn þar sem hann þurfti frá að hverfa og stýra drengjunum sínum í Þrótti Vogum í VISA-bikarnum en Jakob setti þrátt fyrir það 2 mörk. Ragnar Steinarsson var einnig á markalistanum. Hinn nýliðinn Snorri Már Jónsson sá um að verja markið og varði oft á tíðum mjög vel. Tímabilið fer því vel af stað hjá meisturunum en næsti leikur liðsins verður þriðjudaginn 10. júní á Keflavíkurvelli gegn HK.
Lið Keflavíkur:
Jakob Már Jónharðsson, Ragnar Steinarsson, Snorri Már Jónsson (m), Jóhann B. Magnússon, Sverrir Þór Sverrisson, Sigmar Scheving, Georg Birgisson, Friðrik Bergmannsson og Hjörtur Harðarson.
Jakob Már byrjaði tímabilið eins og hann
endaði það síðasta og gerði tvö mörk gegn Val.