Keflavík í 8 liða úrslitin
Keflvíkingar unnu dramatískan sigur á Þórsurum 2-1 í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins á Sparisjóðsvellinum í Keflavík. Þórsarar komust yfir á 21. mínútu þegar Ármann Pétur Ævarsson skoraði eftir hornspyrnu. Jón Gunnar Eysteinsson jafnaði leikinn á 85. mínútu eftir hornspyrnu. Í kjölfarið var markvörður Þórsara rekinn í bað eftir áð hafa ráðist á Guðjón Árna. Það var svo Stefán Örn Arnarson sem skoraði sigurmarkið á 90. mínútu eftir að Hörður Sveins hafi átt skot á markið sem markvörðurinn missti boltann frá sér og Stefán Örn skoraði af stuttu færi. Mikil dramatík þarna í lokin og liðið komið áfram í 8 liða úrslitin.
Þórsarar börðust hetjulega í leiknum og voru betra liðið á löngum köflum og vonbrigði þeirra skiljanleg í leikslok. Lasse Jörgensen markvörður átti klassaleik og varði nokkrum sinnum mjög vel og hélt Keflavík á floti. Keflavík spilaði ekki vel og mega teljast heppnir að hafa landað þessum sigri og komist áfram í keppninni. Hvort um vanmat væri að ræða eða ekki, þá verður liðið að taka sig taki og hugsa sinn gang. Næsta verkefni liðsins er Evrópuleikur gegn Valletta frá Möltu á fimmtudaginn kemur á Sparisjóðsvellinum.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Nikolai Jörgensen, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson (Magnús Þór Magnússon 67.), Jón Gunnar Eysteinsson, Brynjar Örn Guðmundsson (Bessi Víðisson 78.), Viktor Guðnason (Stefán Örn Arnarson 42.) og Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Þorsteinn Atli Georgsson, Tómas Karl Kjartansson og Magnús Þórir Matthíasson.
Dómari: Erlendur Eiríksson.
Kristján þjálfari og Guðjón Árni fyrirliði voru í viðtali á fotbolti.net og birtum við þau hér með þeirra leyfi.
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var ánægður með að hafa komist áfram í 8-liða úrslit VISA bikarsins eftir dramatískan 2-1 sigur á Þór á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í dag. Keflavíkurliðið var dapurt framan af og lenti undir í fyrri hálfleik, en Kristján var ánægður með karakterinn sem þeir sýndu undir lokin með því að skora tvö mörk. Hann var þó ekki ánægður með spilamennskuna í leiknum.
„Það mátti ekki tæpara standa en innst inni hafði maður náttúrulega trú á liðinu, að þeir gæti gert þessa hluti. Spilamennskan heilt yfir var bara verulega döpur og það var erfitt fyrir menn að gera það sem við höfðum áhuga á að gera. En það má ekkert taka af Þórsurunum, þeir spiluðu feikigóðan leik og létu okkur hafa vel fyrir hlutunum. Þeir fengu mjög opin og góð færi og hefðu alveg eins getað verið meira en einu marki yfir,“ sagði Kristján við Fótbolti.net eftir leikinn.
„Ég er mjög ánægður með það hvernig liðið kom til baka og hvernig varamennirnir komu inn og lögðu sitt á vogaskálarnar, það var mjög mikilvægt.“
Keflavíkurliðið kom heim frá Möltu eftir Evrópuleik síðastliðinn föstudag og virkuðu þeir hálf þreyttir í leiknum. Kristján segir ástæðuna fyrir ósannfærandi spilamennsku liðsins í dag hafa verið samblöndu af ferðaþreytu og vanmati.
„Þetta er samblanda af smá þreytu og líka bara það að spila við lið í deild fyrir neðan. Maður verður að bera virðingu fyrir öllum mótherjum og ekki hvað síst í bikarkeppninni. Þetta kennir mönnum bara það að það skiptir engu máli í hvaða leik þú ert að fara, það þýðir ekki að vanmeta einn né neinn andstæðing. Ég ætla að þetta verði okkur að kenningu fyrir framhaldið en að sjálfsögðu erum við mjög sáttir með að hafa tekið þetta svona undir lokin,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur að lokum við Fótbolti.net.
Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði Keflavíkur var ánægður með 2-1 sigur liðsins á Þór í VISA-bikar karla í kvöld. Mörk Keflvíkingana komu á seinustu fimm mínútum venjulegs leiktíma en þeir höfðu átt í talsverðu basli við Þórsarana framan af.
„Við máttum alveg búast við því að fá hellings mótspyrnu frá Þórsurunum. Þeir eru með sprækt lið, unga og spræka stráka þarna fram á við. Við vorum sofandi þarna í fyrri hálfleik, hvað eftir annað. Í raun vorum við pínu heppnir að ná að klára þetta í venjulegum leiktíma,“ sagði Guðjón Árni við Fótbolti.net eftir leikinn.
„Við náum ágætis sóknum í fyrri hálfleik en aftur á móti vorum við hræðilegir að skipta úr sókn í vörn. Þeir hefðu getað skorað fleiri en við hefðum líka getað skorað. En það er alltaf sætara að ná að setja sigurmarkið rétt fyrir leikslok.“
Atli Már Rúnarsson markvörður Þórsara fékk rautt spjald eftir fyrsta mark Keflvíkinganna eftir viðskipti sín við Guðjón Árna inni í teig. Þó svo að Atli sjálfur hafi einungis sagst hafa ýtt í hann, vill Guðjón meina að hann hafi verið kýldur af markverðinum.
„Hann var bara eitthvað ósáttur með eitthvað sem gerðist inni í teig. Ég stóð þarna rétt hjá honum og spurði hvað honum gengi til og þá varð hann alveg brjálaður. Hann kýldi í mig og svo þegar ég fór niður kýldi hann aftur í mig, eða stóð ofan á mér,“ sagði Guðjón að lokum við Fótbolti.net.
Dramatík; Jón Gunnar jafnar, Guðjón Árni liggur og svo var "Afi" rekinn útaf!