Fréttir

Knattspyrna | 30. ágúst 2004

Keflavík í Landsbankadeild kvenna

Kvennalið Keflavíkur leikur í efstu deild kvenna, Landsbankadeildinni, næsta sumar eftir sigur á liði Skagastúlkna.  Liðin sem gengu til leiks í úrslitaleik 1.deildar kvenna sem háður var á laugardag voru þau lið sem höfðu sigrað sína riðla með miklum yfirburðum. Sigurvegarinn færi beint upp en tapliðið þyrfti að spila við liðið sem endar í 7. sæti í efstu deild.

Mikil eftirvænting og spenna einkenndi upphaf leiksins.  Þó voru það ÍA stúlkur sem virtust vera fljótari að hrista stressið af sér og áttu tvö hættuleg skot í markramma Keflavíkurliðsins. ÍA skoraði fyrsta markið á 20. mínútu þegar þær komust upp vinstri kantinn. Keflavíkurliðið vaknaði þá upp við vondan draum og jók hraðann, þær unnu vel fram ávið og uppskáru mark á 31. mínútu.  Guðný Þórðardóttir sem hafði verið iðinn við að keyra inn í vörn Skagastúlkna fékk sendingu inn fyrir frá Ásdísi þjálfara, lék á vörn og markmann ÍA og gaf á Ólöfu Pálsdóttur sem renndi knettinum í autt markið. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var Keflavík að byggja á jöfnunarmarki sínu. Staðan í hálfleik 1-1.

Ágústa Jóna Heiðdal hampar bikarnum fyrir sigurinn í 1. deil.
(Mynd: Jón Björn Ólafsson /
Víkurfréttir)

Greinilegt var að Ásdís og Gísli Heiðars aðstoðarþjálfari höfðu þjappað liði sínu vel saman því Keflavíkurliðið kom mjög grimmt til leiks og virtust Skagastúlkur ekki geta haldið í við það.  Keflavík jók hraðann og tóku Björg Ásta og Lilja Íris öll völd á miðjunni.  Pressaði Keflavík um allan völl og virtist bara tímaspursmál hvenær sigurmark liðsins kæmi. Varnarlína Keflavík stóðst öll áhlaup ÍA af miklu öryggi.  Sigurmark Keflavíkur kom á 85. mínútu þegar Björg Ásta sendi langa sendingu upp vinstri vænginn þar sem Bergey Erna Sigurðardóttir geystist upp og sendi góða fyrirgjöf á nærstöng.  Þar kom Guðný Þórðardóttir á ferðinni, tók boltann í fyrsta með vinstri og sendi knöttinn upp í þaknet Skagamarksins.  Markið kom á mjög góðum tíma og það sem eftir lifði leiks héldu Keflavíkurstúlkur öruggu spili og náði ÍA aldrei að skapa neina hættu.  Þegar dómari leiksins flautaði leikinn af brutust út mikil fagnaðarlæti jafnt meðal leikmanna og áhorfenda, takmark það sem stefnt hafði verið að í upphafi hafði náðst og sæti í efstu deild tryggt.  Fékk Keflavíkurliðið veglegan farandbikar að launum sem við vonum að Keflavík þurfi ekki að kljást um aftur í náinni framtíð.  En eins og fram kom í hófi sem hadlið var leikmönnum og aðstandendum þá er vinnan rétt að hefjast og þarf mikla elju, dugnað og áræðni til að halda liði upp í efstu deild þar sem bestu lið landsins spila.  TIL HAMINGJU KEFLAVÍK.