Keflavík-ÍA í kvöld!!
Í kvöld leika Keflavík og ÍA í 7. umferð Landsbankadeildarinnar og hefst leikurinn kl. 19:15. Eins og flestir vita er Keflavíkurliðið nú í 3. sæti deildarinnar með 10 stig en gestirnir eru í 4.-6. sæti með 9 stig. Það má því búast við spennandi leik á Keflavíkurvelli í kvöld.
ÍA er það lið sem Keflavík hefur leikið oftast gegn í efstu deild eða 77 leiki, þann fyrsta árið 1958. Skagamenn hafa haft mun betur í viðureignum liðanna gegnum árin, þeir hafa unnið 48 leiki, Keflavík hefur unnið 18 en jafntefli hefur 11 sinnum verið niðurstaðan. Markatalan er 86-169, ÍA í vil.
Liðin hafa einnig leikið 12 bikarleiki. ÍA hefur unnið 7 þeirra en Keflavík 4 og einum leik lauk með jafntefli. Þar er markatalan 13-17 fyrir ÍA. Liðin léku einmitt í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins í fyrra og þá vann ÍA 1-0 á heimavelli sínum. Liðin hafa þrisvar sinnum leikið til úrslita í bikarkeppninni, árin 1982 og 1993 vann ÍA 2-1 en árið 1975 vann Keflavík 1-0 og varð bikarmeistari í fyrsta sinn.
Af þeim leikmönnum sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hefur Þórarinn Kristjánsson skorað þrjú deildarmörk gegn Skagamönnum og þeir Guðmundur Steinarsson, Hörður Sveinsson og Magnús Þorsteinsson eitt hver.