Fréttir

Knattspyrna | 15. október 2009

Keflavík Íslandsmeistari í eldri flokki

Í gær fór fram í Egilshöll úrslitaleikur í eldri flokki karla á milli ÍR og Keflavíkur.  Það var ekki um síðri spennu að ræða en í leiknum gegn Carl í undanúrslitunum, en vítaspyrnukeppni þurfti nú líkt og þá til að skera úr um úrslit. Keflavík komst í 1 - 0 með marki frá markamaskínunni Jakobi Má Jónharðssyni en ÍR ingar jöfnuðu rétt fyrir hálfleik. Leikurinn var í járnum allan síðari hálfleikinn en það voru ÍR - ingar sem náðu forystunni þegar um 5 mín. lifðu leiks.  Keflvíkingar lögðu ekki árar í bát frekar en fyrri daginn enda þekktir fyrir allt annað. Þegar rétt tæpar 2 mín. voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fengu Keflvíkingar aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi ÍR.  Gunnar Oddsson lagði knöttinn til hliðar á Guðmund Þór Brynjarsson sem HAMRAÐI knettinum með vinstri fæti efst í markvinkilinn fjær, stórkostlegt mark. ÍR - ingar tóku miðju og dómarinn flautaði til leiksloka. Í fyrri hálfleik framlengingar kom Gunnar Oddsson Keflavík í 3 - 2 með marki úr vítaspyrnu. Það var svo stíf pressa á mark Keflavíkur á lokamínútum leiksins sem skilaði ÍR jöfnunarmarkinu þegar 10 sek. voru til leiksloka. Það þurfti því vítaspyrnukeppni (3 víti á lið) til þess að knýja fram úrslit. ÍR-ingar skoruðu úr sínum þremur vítum en Keflvíkingar létu verja hjá sér spyrnu nr. 2 og þar við sat og því þurfti ekki á þriðja víti Keflvíkinga að halda.  ÍR-ingar sigruðu því úrslitaleikinn 6 - 5 en Keflvíkingar fengu Íslandsmeistaratitilinn afhentan í leikslok !!!

Í reglugerð KSÍ segir:
39.1. Lið, sem ekki mætir til leiks og hefur engar gildar ástæður, telst hafa tapað leiknum 0-3.
Viðkomandi lið getur ekki orðið sigurvegari í yfirstandandi móti......

ÍR mætti ekki til leiks í einum leik í sumar og því var ljóst fyrir leik að liðið gat ekki orðið Íslandsmeistari.  Auk þess mætti ÍR til leiks í gær með ólöglega skipað lið, þar sem a.m.k. tveir leikmenn þeirra eru ekki félagsbundnir ÍR.

Keflavík er því Íslandsmeistari í eldri flokki karla (30+) þriðja árið í röð.


Íslandsmeistarar Keflavíkur í eldri flokki karla 2009
Efri röð frá vinstri:Ragnar Steinarsson, Ólafur Þór Gylfason, Guðmundur Þór Brynjarsson, Jóhann B. Magnússon, Kristinn Guðbrandsson, Jakob Már Jónharðsson og Gunnar Oddsson.
Neðri röð frá vinstri: Andri Scheving (liðstjóri), Sigmar Schveving, Ingvar Georgsson, Kristján Geirsson, Gunnar Magnús Jónsson og Jóhann Steinarsson. Á myndina vantar Ólaf Pétursson.


Gunnar Magnús Jónsson og Jakob Már Jónharðsson fyrirliðar Keflavíkur með bikarinn.


Kristján Geirsson og Jóhann B. Magnússon hlaupa sigurhringinn.


Ingvar Georgsson smellir kossi á bikarinn.


Feðgarnir Andri Scheving (liðstjóri) og Sigmar Scheving sælir á svip.


Bikarinn í öruggum höndum Krissa Geirs.