Fréttir

Knattspyrna | 13. júlí 2007

Keflavík komið áfram í VISA-bikarnum

Keflavík komst í kvöld í undanúrslit VISA-bikarsins með 1-2 sigri á Aftureldingu í Mosfellsbænum.  Keflavíkurstúlkur byrjuðu með krafti og á 12. mínútu skoraði Vesna Smilijovic með góðu skoti eftir góðan undirbúning Bjargar Ástu og Unu Harkin á hægri kanti, 0-1.  Afturelding treysti mikið á sterkan varnarleik og fljóta framherja.  Á 18. mínútu var brotið á leikmanni Aftureldingar rétt utan teigs.  Aukaspyrnuna tók Kristy Marr og skoraði hún beint úr spyrnunni efst í markhornið, óverjandi fyrir Jelenu Petrovic, 1-1.  Áfram hélt baráttan og reyndu Keflavíkurstúlkur að halda bolta innan liðsins og byggja upp sóknir.  Úr einni slíkri á 32. mínútu komst Björg Ásta upp hægri kant og fyrirgjöf hennar barst til Dönku Padovac sem skoraði með góðu skoti, 1-2. Ekki gerðist mikið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikur var sambærilegur þeim fyrri nema hvað mörkin urðu ekki fleiri þó Keflavíkurliðið hafi fengið nokkur færi til að gera út um leikinn.  Góður sigur á erfiðum útvelli var staðreynd og liðið komið áfram í bikarnum.  Aðrir leikir kvöldsins voru þessir, Breiðablik-Valur  2-1, Þór/KA-KR  2-5, Stjarnan-Fjölnir 1-2.  Þannig að í pottinum ásamt Keflavík verða Breiðablik, KR og Fjölnir. Dregið verður á morgun í undanúrslitum og verður gamann að sjá hvaða mótherja Keflavík fær, gott væri að fá heimaleik en Keflavík hefur ekki fengið heimaleik í tvo ár og leikið síðustu fimm bikarleiki á útivelli..

Nú er liðið komið í frí þar sem U-19 landsleikjatörn er að skella á.  Næsti leikur er 27. júlí við KR í Frostaskjóli.

Keflavík: Jelena, Ester (Anna), Lilja, Beth, Donna, Eva (Bryndís), Danka, Björg Magnea, Björg Ásta, Una og Vesna.
Varamenn: Justina og Rebekka.



Danka Padovac skoraði sigurmark Keflavíkur.

ÞÞ