Keflavík komið í 8 liða úrslit VISA-bikarsins
Það var sannarlega boðið upp á mikinn spennuleik á Fylkisvelli í gærkvöldi þegar Keflavíkurstúlkur sóttu Fylkisstelpur heim í 16 liða úrslitum VISA-bikarsins. Keflavík sigraði 6-7 eftir vítaspyrnukeppni en staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 1-1. Leikurinn var hin besta skemmtun og greinilegt að liðin ætluðu sér ekkert nema sigur enda mikið í húfi. Áhorfendur létu sitt ekki eftir liggja og mætu vel til að styðja sín lið.
Ekki var mikið búið af leiknum þegar Keflvík skoraði fyrsta mark leiksins. Á 22. mínútu fengu Keflvíkingar hornspyrnu frá hægri sem Vesna Smiljovic tók og barst boltinn á fjærstöng þar sem Guðný Petrína Þórðardóttir skallaði knöttinn í mark Fylkis. Það sem liðið hafði af leiknum var Fylkisliðið búið að vera mjög ákveðið úti á velli en ekki náð að skapa sér nein marktækifæri. Keflvíkurliðið náði hægt og bítandi tökum á leik sínum og komust nokkrum sinnum í ágætis færi en fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan 0-1.
Fylkir hóf leikinn eins og þær byrjuðu hann, með miklum látum. Á 55. mínútu náðu þær að jafna eftir hornspyrnu. Keflavík fékk nokkur fín færi og m.a. náðu Fylkisstelpur að bjarga á undranverðan hátt á marklínu eftir að Vesna hafði brotist upp hægri vænginn og upp að endalínu. Hún sendi boltann fyrir þar sem Guðný náði að sneiða boltann fram hjá markmanni Fylkis en leikmaður Fylkis náði að komast fyrir boltann. Fylkir náði að setja pressu á mark Keflavíkur nokkrum sinnum en Dúfa Ásbjörnsdóttir var öryggið uppmálað og greip vel ínn í þegar á þurfti að halda. Eftir venjulegan leiktíma var því jafnt 1-1 og þurfti því að framlengja leikinn.
Framlengingin bauð ekki upp á mikið markvert, stöðubaráttan var allsráðandi og liðin sóttu á víxl. Mikil spenna var farin að myndast þegar ljóst var að vítaspyrnukeppni þyrfti til að gera út um leikinn. Bæði liðin skoruðu úr sínu fimm fyrstu spyrnum, hjá Keflavík voru það Guðný, Vesna, Danka, Lilja og Björg Ásta skoruðu allar örugglega úr sínum spyrnum. Þá var komið að bráðabana og tók Fylkir fyrstu spyrnuna og fór hún yfir markið. Donna Cheyne gat tryggt Keflvík sigur sem og hún gerði með öruggri spyrnu. Keflavík komið áfram og mikill fögnuður braust út meðal leikmanna.
Vel af sér vikið hjá Keflavíkurliðinu gegn góðu liði Fylkis og verður ekki auðvelt fyrir lið að mæta á þennan völl í sumar.
Nú er komið að landsleikjahlé og leikur Keflavík næst 29. júní gegn Breiðablik á Keflavíkurvelli kl.19:15.
Keflvíkurstúlkur höfðu mikla ástæðu til að fagna eftir sigurinn í gær.
Vesna, Eva, Danka, Lilja og Björg Magnea.
(Mynd: Víkurfréttir)