Keflavík meistari í Futsal
Keflavík er Íslandsmeistari í Futsal, innanhúss knattspyrnu. Liðið sigraði Víði 6-5 í úrslitaleiknum í gær, í sannkölluðum Suðurnesjaslag. Þar kom sigurmarkið þegar innan við mínúta var eftir og markið mikilvæga skoraði Zoran Daníel Ljubicic. Staðan í hálfleik var 3-2 Keflavík í vil. Þegar sex mínútur voru eftir af leiknum leiddi Keflavík 5-3 en Víðismenn jöfnuðu leikinn með mikilli baráttu og lítið eftir. En það var svo Zoran Daníel sem skoraði sigurmarkið eins og áður sagði. Sigurður Sævarsson gerði tvö af mörkum Keflavíkur og þeir Bojan Stefán Ljubicic, Magnús Þórir Matthíasson, Guðmundur Steinarsson og Zoran Daníel skoruðu eitt hver.
Keflavík vann Hvöt í 8 liða úrslitum 7-4 og Víking Ólafsvík 6-3 í undanúrslitum. Þess má geta að feðgarnir Zoran Daníel og Bojan Stefán spiluðu báðir og er gaman af því að feðgar vinni saman Íslandsmeistartitill og það gerist ekki oft.
Það var nóg að gera hjá strákunum um helgina. Liðið vann Leikni Reykjavík 3-1 í Reykjaneshöllinni á laugardagsmorguninn. Þar gerði Hörður Sveinsson tvö mörk og Lúkas Malesa eitt.
Myndir: Jón Örvar
Magnús Sverrir lyftir Íslandsbikarnum á loft.
Sigurlið Keflavíkur.
Feðgarnir Bojan og Zoran...
...og bræðurnir Magnús og Þorsteinn.
Sigurður Sævarsson skoraði tvö mörk í úrslitaleiknum
og fær því mynd af sér með bikarnum.
Lið Víðis sem stóð sig frábærlega í mótinu.