Fréttir

Knattspyrna | 1. júní 2010

Keflavík miklu betri gegn Selfossi

Keflavík sigraði spútniklið Selfoss 2-1 á Njarðtaksvellinum sl. mánudagskvöld. Liðið er á toppnum með fimm stiga forystu, eftir fimm umferðir.  Fínar aðstæður voru í Njarðvík og vel mætt á völlinn, enda um toppslag að ræða.

Leikurinn byrjaði rólega og jafnræði var með liðunum.  Selfoss skoraði á 20. mínútu þegar Sævar Þór Gíslason renndi boltanum í autt markið.  Keflavík tók við sér strax eftir markið og fóru að þjarma all hressilega að Selfyssingum.  Mörg fín færi litu dagsins ljós í fyrri hálfleik en svo kom að því að Paul McShane jafnaði á 33. mínútu með góðu skoti úr vítateig eftir fyrirgjöf frá Magnúsi Sverrir.  Fyrsta mark Paul fyrir Keflavík.  Staðan 1-1 í hálfleik og Keflavík mikið betri.

Seinni hálfleikur bauð upp á það sama.  Keflavík var sterkara og fengu færi en snjall markvörður Selfoss átti mjög góðan leik.  Hörður Sveinsson skoraði svo sigurmarkið á 56. mínútu þegar hann fylgdi vel á eftir skoti Magnúsar Sverris sem skaut í slána og út.  Hörður fylgdi vel á eftir og skoraði sitt fyrsta mark í sumar.  Selfoss ógnaði aldrei Keflavíkurmarkinu að ráði enda varnarvinna okkar manna til fyrirmyndar.  Sigur Keflvíkinga var sanngjarn og liðið að koma virkilega vel út.

Næsti leikur okkar í Pepsi-deildinni verður í Garðabænum gegn Stjörnunni mánudaginn 7. júní kl. 19:15.  Keflavík leikur fyrst í bikarkeppninni fimmtudaginn 3. júní kl 19:15 gegn KS/Leiftri á Njarðtaksvellinum í Njarðvík.

Keflavík:  Árni Freyr Ásgeirsson, Alen Sutej, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Guðjón Árni Antoníusson, Hólmar Örn Rúnarsson, Paul McShane, Jóhann Birnir Guðmundsson (Magnús Þórir Matthíasson 83.), Magnús Sverrir Þorsteinsson (Brynjar Örn Guðmundsson 86.), Guðmundur Steinarsson og Hörður Sveinsson
Varamenn:  Bergsteinn Magnússon, Einar Orri Einarsson, Andri Steinn Birgisson, Sigurður Gunnar Sævarsson og Ómar Karl Sigurðsson.

Áhorfendur voru alls 1.463 og skemmtu sér konunglega, hvort sem það voru heimamenn eða Skjálftafólkið sem mætti vel.
Dómari: Jóhannes Valgeirsson og honum til aðstoðar þeir Einar Sigurðsson og Eðvarð Eðvarðsson. Eftirlitsdómari Eyjólfur Ólafsson.

Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir


Paul skorar og jafnar leikinn.


...og fagnað!


Hörður fylgir eftir skoti frá Magnúsi Sverri og skorar...


...og sigurmarkinu fagnað vel.