Fréttir

Keflavík og Breiðablik – samkomulag varðandi félagsskipti Sveindísar Jane
Knattspyrna | 12. desember 2019

Keflavík og Breiðablik – samkomulag varðandi félagsskipti Sveindísar Jane

Þann 5. desember sl. gerðu Keflavík og Breiðablik með sér samkomulag um að lána Sveindísi Jane Jónsdóttur úr Keflavík í Breiðablik og mun Sveindís því leika með Blikum á komandi tímabili.

Sveindís Jane, sem er 18 ára gömul, á að baki 80 leiki fyrir meistaraflokk Keflavíkur og hefur í þeim skorað 54 mörk. Hún skoraði 7 mörk fyrir Keflavík í sumar og átti framúrskarandi tímabil. Hún hefur jafnframt leikið 38 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skoraði í þeim 21 mark.

Keflavík hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á uppbyggingu í kvennastarfi sem hefur skilað mörgum efnilegum stúlkum inn í meistaraflokk félagsins sem spilaði á liðnu tímabili í efstu deild.

Markmið deildarinnar er að tryggja að hagsmunir félagsins og leikmannsins fari saman og samkomulagið við Blika er liður í þeirri vegferð. Á sama tíma og við horfum um stundarsakir á eftir framúrskarandi leikmanni sem söknuður verður af verður ekki litið framhjá því að gæðin og geta leikmannsins kallar á áframhaldandi áskoranir og lánið til Blika er liður í því.

Félagið þakkar Sveindísi og fjölskyldu heilshugar fyrir gott samstarf og óskar henni alls hins besta á komandi tímabili.

Knattspyrnudeild Keflavíkur