Keflavík sigraði Stjörnuna
Keflavíkurstúlkur sigruðu Stjörnuna með tveimur mörkum gegn engu í gær í Reykjaneshöllinni. Þetta var þriðji leikur liðsins í A-deild Lengjubikarsins. Leikur liðanna var hin besta skemmtun þar sem barátta og dugnaður einkenndi leik liðsins. Fyrra mark Keflavíkur skoraði Guðný Þórðardóttir á 35. mínútu með góðu skoti fram hjá markmanni Stjörnunnar eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar frá Björgu Ástu systur sinni. Seinni hálfleikur hélt áfram með sömu baráttu beggja liða sem ætluðu greinilega að sækja til sigurs. Á 16. mínútu skoraði Vesna Smilijovic seinna mark Keflavíkur eftir laglega sókn. Lilja Íris Gunnarsdóttir sendi þá langa sendingu upp kantinn á Guðnýju Þórðar sem náði að stinga sér aftur fyrir varnarmenn Stjörnunnar og senda boltann fyrir markið þar sem Vesna var mætt og skoraði með góðu skoti. Laglega gert hjá Keflavíkurliðinu. Þegar vel var liðið á seinni hálfleik fékk Eva Kristinsdóttir sitt seinna gula spjald og var því vikið af velli og spilaði Keflavíkurliðið því einum færri það sem eftir lifði leiks. Góður sigur og vel af sér vikið hjá Keflvík og greinilegt að Salih Heimir Porca er á réttri leið með liðið.
Lið Keflavíkur: Dúfa, Anna (Justyna), Björg, Lilja, Ester, Karen Sævars (Birna), Eva, Danka, Sonja, Vesna, Guðný.
Varamenn: Mist, Sara, Helena, Bryndís
|
|
ÞÞ