Keflavík úr leik í Evrópukeppninni
Keflavík og Valletta gerðu 2-2 jafntefli í seinni leik liðanna í Europa League á Sparisjóðsvellinum í gærkvöldi. Keflavík tapaði fyrri leiknum 3-0 og eru þar með úr leik. Valletta komst yfir á 41. mínútu þegar Dyson Falzon skoraði eftir að hafa sloppið einn inn fyrir. Jón Gunnar Eysteinsson jafnaði leikinn á 55. mínútu með stórglæsilegu skoti í samskeytin. Jóhann Birnir Guðmundsson kom inn á sem varamaður og var ekki lengi að stimpla sig inn. Pilturinn skoraði á 72. mínútu úr aukaspyrnu af einhverjum 40 metrum þar sem boltinn sigldi yfir alla og í markið. Verðskulduð forysta og Keflvíkingar líklegir að bæta við og sóttu grimmt. Það var hins vegar Njongo Priso sem slapp í gegn á 82. mínútu og tryggði Valletta jafntefli.
Keflvíkingar fengu ágætis færi í leiknum og Hogg markvörður Valletta varði nokkrum sinnum mjög vel. Spilamennskan var fín á köflum og það er margt sem liðið getur tekið úr þessum leik. Aftur á móti er umhugsunarefni hvernig við erum að fá þessi mörk á okkur, erum að sækja og töpum boltanum ákaflega klaufalega og andstæðingarnir bruna upp og skora. Þetta er eitthvað sem Kristján og strákarnir verða að skoða rækilega og ekki seinna en strax. Við erum því dottnir úr leik í Evrópukeppninni þetta árið og nú er bara að fara að hala inn stig í Pepsi-deildinni en næsta verkefni liðsins er leikur í Vestmannaeyjum á sunnudagskvöldið.
Að lokum er vert að minnast á frábæru umgjörð á leiknum í gærkvöldi sem var Knattspyrnudeildinni og hennar starfsfólki til mikils sóma.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Nicolai Jörgensen (Brynjar Örn Guðmundsson 46.), Magnús S. Þorsteinsson (Jóhann Birnir Guðmundsson 70.), Einar Orri Einarsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Símun Samuelsen, Haukur Ingi Guðnason (Stefán Örn Arnarson 65.), Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þórir Matthíasson, Þorsteinn Atli Georgsson og Viktor Guðnason.
Áhorfendur: 900.
Kristján þjálfari og Jordi Cruyff voru í viðtali á fótbolti.net og birtum við þau hér:
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var að vonum svekktur eftir að sínir menn duttu úr Evrópukeppninni eftir 2-2 jafntefli gegn maltneska liðinu Valletta. Samtals tapaði Keflavík 5-2, en Kristján sá þó eitthvað jákvætt í þessu.
„Ég er ánægður að einhverju leiti. Að koma til baka eftir að hafa lent 1-0 undir í hálfleik og sjá fram á það að skora fimm mörk, þá er ég ánægður með það að við skyldum byrja seinni hálfleikinn með því að skora og komast yfir, en ég hefði helst viljað vinna,“ sagði Kristján við Fótbolti.net eftir leikinn.
„Ég er mjög ósáttur með það að öll mörkin fimm sem við fáum á okkur gegn þessu liði eru eftir að við erum með boltann í sókn. Við erum með boltann en þeir taka hann af okkur og skora. Þetta er það sem við þurfum að læra; betri sendingar og klára sóknirnar okkar. Það er alveg ferlegt að fá öll þessi mörk svo á sig.“
„Við föllum út á því að sendingarnar okkar eru of slakar og við tökum of margar rangar ákvarðanir. Við missum boltann og fáum á okkur hraðaupphlaup og það er það sem fellir okkur.“
„Við byrjuðum þokkalega og fengum hálffæri en við fengum betri færi í byrjun seinni hálfleiks, fannst mér. Það var ekki fyrr en í þriðja færinu sem við náðum að skora mark. Við vildum ekki tapa hérna á heimavelli og það tókst, en fyrst og fremst vildum við koma inn í seinni hálfleikinn og vinna leikinn.“
„Það er mikilvægt fyrir íslenskan fótbolta að við náum eins mörgum stigum í þessum leikjum og unnt er til að halda okkur í UEFA stigatöflunni og svo að við dettum ekki alveg niður í neðsta flokkinn.“
„Þeir eru ekkert mikið betri en við en mér finnst eins og flest svona 50/50 dæmi detti allan tímann þeirra megin, hvað sem það var.“
Hollendingurinn og goðsagnarsonurinn Jordi Cruyff spilaði allan leikinn fyrir Valletta frá Möltu þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Keflavík í seinni viðureign liðanna í 1. umferð Evrópudeildarinnar. Valletta vann fyrri leik liðanna 3-0 úti á Möltu og var því ljóst að yrði á brattann að sækja.
Cruyff segir þennan sigur vera mikla viðurkenningu fyrir maltneska knattspyrnu og viðurkennir hann að Valletta hafi í raun klárað dæmið á heimavelli.
„Ég er mjög ánægður. Við höfum ekki verið að æfa í nema tvær vikur og það er mjög erfitt að þurfa skyndilega að spila tvo leiki sem þennan gegn liði sem hefur verið að spila í deildinni og bikarnum undanfarna tvo til þrjá mánuði. Mér fannst við koma þeim mikið á óvart í heimaleiknum, og okkur sjálfum í rauninni, og 3-0 eftir fyrri leikinn var mjög góð staða til að taka með sér hingað,“ sagði Cruyff við Fótbolti.net.
„Við mættum nokkuð öruggir í þennan leik, þó svo að við vissum að við þyrftum að berjast fyrir þessu, en í seinni hálfleik þegar leikurinn varð aðeins líkamlegri, þá sáum við að við erum ekki alveg 100 prósent hvað líkamlegt form varðar. Þá varð þetta svolítið erfitt.“
„Ég held bara að við höfum klárað þetta heima. Við undirbjuggum okkur mjög vel fyrir þessa viðureign. Við horfðum á mikið af myndböndum af Keflvíkingunum svo að við vissum þó nokkuð um lykilmenn þeirra.“
„Það eru heil sjö ár síðan fótboltalið frá Möltu komst í aðra umferð í Evrópukeppni svo að þetta er stórt skref fyrir maltneska knattspyrnu. Valletta hefur reynt að taka skrefið og verða að hálf-atvinnumannaliði og þeir hafa eytt talsverðum peningum nú þegar, þannig að ég er mjög ánægður með að það sé að skila sér.“
Keflvíkingarnir áttu fínan leik í dag og hefðu hæglega getað unnið leikinn að minnsta kosti, þó svo að þeir hafi hugsanlega ekki verið nægilega sannfærandi til að vinna upp tapið frá því í leiknum úti. Cruyff segir þó að lið Valletta hafi verið betri í fyrri hálfleiknum en viðurkennir að Keflvíkingar hafi verið sterkari aðilinn í seinni hálfleik.
„Mér fannst Keflvíkingarnir spila fínan fótbolta á köflum í dag en það skipti í raun engu máli. Við lítum á þetta sem einn 180 mínútna leik. Við áttum í örlitlum vandræðum með þá í seinni hálfleik sem var kannski óþarft fyrst að við höfðum nú þegar unnið 3-0 heima og vorum 1-0 yfir hér. Keflavík settu okkur undir örlitla pressu en mér fannst við eiga tækifæri til að skora jafnvel meira en eitt mark í fyrri hálfleik,“ bætti hann við.
„Þetta var alltaf erfitt fyrir þá eftir að við skoruðum en mér fannst við klárlega vera betri í fyrri hálfleiknum. Ég viðurkenni samt að Keflvíkingarnir voru sterkari aðilinn í seinni hálfleiknum.“
Cruyff segir að lokum að honum þyki Valletta klárlega hafa átt skilið að komast áfram í næstu umferð miðað við spilamennskuna í fyrri leiknum.
„Við áttum klárlega skilið að komast áfram og úrslitin sanna það. Ef viðureignin hefði samtals farið 3-2 eða 4-3 hefði verið hægt að tala um heppni, en 5-2 samtals tel ég að sýni að við höfum verið betra liðið og það er frábær viðurkenning fyrir lið sem hefur einungis æft saman í tvær vikur.“
Magnús Sverrir með boltann.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)