Keflavík úr leik í VISA-bikarnum
Keflavíkurstúlkur eru úr leik í VISA-bikarnum er þær töpuðu fyrir efsta liði Landsbankadeildar, Breiðablik, í 8 liða úrslitum keppninnar í gær. Lokatölur urðu 3-1 en leikurinn var háður á Kópavogsvelli.
Leikurinn var vel spilaður af hálfu Keflavíkur og þá sérstaklega fyrri hálfeikurinn þar sem Keflavíkurliðið gaf Blikum engan frið og sóttu hratt á vörn þeirra. Keflavíkurliðið geislaði af sjálfsöryggi og kom Blikum oft í opna skjöldu með hraða sínum og spili sem var mjög gott á stórum köflum fyrri hálfleiks. Blikar komust þó yfir á 5. mínútu leiksins eftir vel útfærða hornspyrnu. En Keflavík, eins og í fyrri leik liðanna í sumar, lét ekki bugast og jafnaði á 9. mínútu með marki Ólafar Helgu Pálsdóttur. Það sem eftir lifði hálfleiksins sóttu liðin á víxl og áttu Keflavíkurstúlkur nokkur góð færi sem gott hefði verið að nýta.
Seinni hálfeikur hófst eins og sá fyrri og var jafnræði með liðunum. Keflavíkurliðið hélt áfram að berjast og lét boltann ganga sín á milli og reyndu að byggja markvisst upp. En um miðjan seinni hálfleikinn fór að draga af liðinu í heild sinni og Blikar skoruðu tvö ódýr mörk sem vel hefði verið hægt að koma í veg fyrir, fyrst á 63. mínútu og síðan á þeirri 73.
VISA-bikardraumurinn er úti þetta árið en það góða við þennan leik er að hann sýnir að Keflavíkurliðið er á uppleið og vigtar þessi leikur í reynslubankanum fyrir komandi átök í seinni umferð deildarinnar sem skiptir Keflavík öllu.
Næsti leikur er gegn Breiðablik föstudaginn 15. júlí kl. 20:00 á Keflavíkurvelli. Ekkert annað er að gera í stöðunni en að halda áfram að berjast, hafa gaman af og hala inn 3 stig. Takmarkið að halda sér í hópi þeirra bestu á næstu leiktíð og með góðum stuðningi áhorfenda næst það.
Lið Keflavíkur: Þóra, Ásdís, Jessice, Björg, Sunna, Ágústa, Hrefna (Claire), Vesna, Guðný, Nína, Ólöf (Donna)
Varamenn: Steindóra, Hjördís, Ester, Claire, Donna
Björg Ásta fyrirliði og Sunna spiluðu vel í gær á móti Blikum.