Fréttir

Knattspyrna | 15. ágúst 2010

Keflavík vann fyrsta leikinn í FUTSAL

Það var fjör á Ásvöllum í gær þegar forkeppni Evrópukeppninnar í Futsal, G-riðli hófst.  Club Futsal Eindhoven og Kremlin Bicetre United hófu leik kl. 15:00 og lauk leiknum 3-3 eftir æsispennandi leik þar sem Eindhoven var með forystuna þegar lítið var eftir.

Svo kom að okkur Keflvíkingum að hefja leik og mótherjinn var Vimmerby IF frá Svíþjóð.  Leikurinn byrjaði frekar rólega og það var ekki fyrr en á 9. mínútu að Viktor Smári Hafsteinsson skoraði fyrsta mark leiksins og þar með fyrsta mark Keflvíkinga í Evrópukeppninni í FUTSAL.  Magnús Sverrir Þorsteinsson skoraði stuttu síðar og kom Keflavík í 2-0.  Lið Vimmerby átti ágætis sóknir en Eyþór Ingi Júlíusson átti fantagóðan leik í markinu og kom í veg fyrir að þeir skoruðu.  Staðan var 2-0 í hálfleik og Keflavík mun betra.

Í seinni hálfleik ringdi inn mörkum.  Keflavík komst í 6-0 og liðið fór hamförum.  Að lokum fór svo að Keflavík sigraði 10-6 í fjörugum leik.  Fyrsti sigur hjá íslensku félagsliði í Evrópukeppni í FUTSAL þar með staðreynd.  Keflavík sýndi góðan leik og voru töluvert betri aðilinn en þreyta fór að segja til sín í lokin þegar mótherjinn setti nokkur mörk.  Keflavík á ágætis möguleika í riðlinum.  Liðin sem hófu fyrsta leikinn í riðlinum eru góð en á góðum degi með góðum leik er hægt að vinna þessi bæði lið.

Þess má geta að öll umgjörðin hjá Knattspyrnudeild Keflavíkur varðandi mótið er til mikils sóma og allt til fyrirmyndar.  Eftirlitsmenn UEFA voru hæstánægðir með allt og gefa Keflavík frábæra einkunn fyrir mótshaldið.

Næsti leikur Keflavíkur er í dag, sunnudaginn 15. ágúst, kl. 17:30 gegn Kremlin Bicetre frá Frakklandi.  Leikur Vimmerby og Eindhoven hefst kl 15:00.  Fólk er hvatt til að koma og kíkja á keppnina á Ásvöllum enda ekki á hverju ári sem spilað er í Evrópukeppni í FUTSAL á Íslandi.

Mörk Keflavíkur skoruðu: Magnús Sverrir Þorsteinsson 4, Bojan Stefán Ljubicic 2, Guðmundur Steinarsson 2, Viktor Smári Hafsteinsson og Lúkas Malesa.

Byrjunarlið Keflavíkur: Eyþór Ingi Júlíusson, Haraldur Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson, Bojan Stefán Ljubicic og Magnús Sverrir Þorsteinsson fyrirliði.
Aðrir leikmenn sem allir komu við sögu í leiknum: Árni Freyr Ásgeirsson, Magnús Þór Magnússon, Viktor Smári Hafsteinsson, Arnór Ingvi Traustason, Theodór Halldórsson, Zoran Daníel Ljubicic og Lúkas Malesa.

Liðsstjórn: Willum Þór Þórsson, Þór Hinriksson, Jón Örvar Arason, Falur Helgi Daðason, Þórólfur Þorsteinsson og Björgvin Björgvinsson.

Fyrsti dómari: Marc Bikett frá Englandi.
Annar dómari: Kamil Cetin frá Tyrklandi.
Þriðji dómari: Ainar Kuusk frá Eistlandi.
Tímadómari: Andri Vigfússon frá Íslandi.

Myndir: Jón Örvar.



Eyþór Ingi og Viktor Smári.


Lið Keflavíkur.


Sænska liðið Vimmerby IF.


Kremlin Bicetre United frá Frakklandi.


Hollendingarnir í Club Futsal Eindhoven.