Fréttir

Knattspyrna | 18. febrúar 2005

Keflavík varð við ósk Stefáns

Stefán Gíslason, leikmaður Keflavíkur, er á leið til Lyn í Noregi ef hann stenst læknisskoðun liðsins.  Aðdragandinn að félagaskiptum Stefáns er skammur.  Í upphafi var ekki áhugi hjá honum að fara né Keflavík að láta hann lausan undan tveggja ára samningi sem hann gerði sl. sumar.  Þegar Lyn og umboðsmaður Stefáns, Arnór Guðjohnsen, urðu varir við lítinn áhuga Keflavíkur breyttust hlutirnir fljótt og félagið gerði Stefáni hagstæðan samning og bauð Keflavík ásættanlega greiðslu fyrir samningsbundinn leikmanninn.  En það var Stefán sem hafði síðasta orðið í þessu máli og niðurstaðan var sú að Keflavík varð við ósk Stefáns um að leyfa honum að fara.  Stefán Gíslason hefur reynst Keflavík gríðarlega vel, þar fer leikmaður og leiðtogi af bestu gerð.  Þau voru þung skrefin fyrir formann Knattspyrnudeildar, stjórn og þjálfara að láta Stefán lausan.  En drengskaparheit Stefáns og Rúnars formanns um að í slíkum málum væri sameiginleg ákvörðun tekin af þeim tveimur og sjónarmið leikmannsins virt varð til þess að niðurstaðan er þessi.  Stjórn, leikmenn og stuðningsmenn Keflavíkur óska Stefáni velfarnaðar á nýjum vettvangi.  Stefán hefur góða reynslu af því að leika erlendis og því var ákvörðunin um vistaskipti að þessu sinni tekin á yfirveguðum og traustum grunni. ási


Stefán var valinn besti leikmaður meistaraflokks karla síðasta sumar.
(Mynd: Jón Örvar Arason)