Keflavík-Víkingur í VISA-bikarnum
Keflvíkingar drógust gegn Víkingum í undanúrslitum VISA bikarsins en dregið var nú í hádeginu á Hótel Loftleiðum. Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli mánudaginn 28. ágúst og hefst kl. 20:00. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast KR og Þróttur og fer sá leikur fram þriðjudaginn 29. ágúst kl 20:00.
Þetta er aðeins í þriðja sinn sem Keflavík og Víkingur mætast í bikarkeppni KSÍ og í fyrsta skipti í 25 ár. Árið 1981 vann Keflavík 4-1 í 16 liða úrslitum á Keflavíkurvelli. Magnús Garðarsson skoraði þrennu í leiknum og Óli Þór Magnússon eitt mark. Áður höfðu liðin mæst í 8 liða úrslitum árið 1975 og þá vann Keflavík 2-0 á Melavellinum. Steinar Jóhannsson og Einar Gunnarsson skoruðu fyrir Keflavík í þeim leik.