Keflavíkurstúlkur tapa fyrir KR í miklum markaleik
Keflavíkurstúlkur sóttu KR heim í Frostaskjólið í gær og er óhætt að segja að leikurinn hafi verið hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. Leiknum lauk með sigri KR 5-4, þar sem Keflavík komst í 0-3 eftir 15 mínútna leik. En staðan í hálfleik var 2-3.
Leikurinn var ekki nema tveggja mínútna gamall þegar Nína Ósk Kristinsdóttir hafði skorað fyrst mark Keflavíkur. Strax á 12. mínútu hafði Danka Padovac skorað annað mark okkar fyrir okkar stelpur. Draumurinn var ekki búinn því á 15. mínútu skoraði Nína Ósk sitt annað mark og þriðja mark Keflavíkur. Já, 0-3 á móti KR í Frostaskjólinu er eitthvað sem Keflvíkingar eru ekki vanir. Leikur liðsins var mjög góður í fyrri hálfleik, þar sem boltinn flaut vel innan liðsins og einnig náði liðið að nýta kantana vel. KR skoraði sín fyrstu tvö mörk úr föstum leikatriðum, það fyrra á 26. mínútu og var þar Alicia Wilson á ferð. Seinna mark KR í fyrri hálfleik skoraði Hólmfríður Magnúsdóttir á 37. mínútu.
Í seinni hálfleik var sama upp á teningnum, mikill hraði og stórskemmtilegur leikur. Svo fór að á fjögurra mínútna kafla skoruðu liðin þrjú mörk. Fyrst var það KR sem jafnaði leikinn með marki Katrínar Ómarsdóttur sem síðan skoraði aftur á 60. mínútu og kom KR yfir. Ólöf Helga Pálsdóttir jafnaði svo leikinn í 4-4 á 62. mínútu. Strax eftir mark Ólafar var Emmu Wright vikið af velli og hefði Keflavík átt að geta nýtt sér það betur. En svo fór sem fór og á 75. mínútu skoraði Þórunn Jónsdóttir sigurmark KR með skoti utan af velli og var það mark af ódýrari gerðinni. Þannig að KR sigraði í miklum markaleik og sýnir framganga Keflavíkur að liðið á fullan rétt á því að blanda sér í toppbaráttuna ef liðið nær að spila svona í næstu leikjum.
Eftir svona leiki þarf að ná sér niður, byggja á því sem vel var gert og laga það sem betur mátti fara og leggja Stjörnuna í næsta leik n.k. miðvikudag í Garðabæ.
Eftir leikinn var Gulli Kára þjálfari að vonum svekktur með úrslitin þar sem möguleikar Keflavík voru sannarlega miklir á því að leggja stórveldið KR. En lagði hann áherslu á að Keflavík væri búið að minna á sig og ætti vel heim í hópi þeirra bestu.
Mynd: Karen Penglase, Ólöf og Danka í baráttu við Hólmfríði í leiknum í gær.
ÞÞ