Fréttir

Knattspyrna | 17. október 2008

Keflvíkingar á ferð og flugi

Þó að keppnistímabilinu hér heima sé lokið er langt frá því að okkar menn séu lagstir í dvala.  Nokkrir þeirra hafa verið á ferð og flugi undanfarna daga.

Fyrirliðinn Guðmundur Steinarsson er búinn að vera á fullu með íslenska landsliðinu eins og flestir vita.  Hann var kallaður inn í hópinn á síðustu stundu fyrir leikinn gegn Noregi í síðasta mánuði.  Guðmundur kom inn á sem varamaður í þeim leik og lék þar með sinn annan landsleik en sá fyrsti kom gegn Brasilíu árið 2002.  Guðmundur var í landsliðshópnum fyrir leikina gegn Hollandi og Makedoníu í vikunni en var ekki í leikmannahópnum í þessum leikjum.

Guðmundur á landsliðsæfingu fyrir leikinn gegn Skotum. (Mynd: fótbolti.net)

Hallgrímur Jónasson er hjá sænska úrvalsdeildarliðinu GAIS og verður hjá liðinu í þessari viku.  Haddi spilaði æfingaleik með liðinu á miðvikudag og þótti standa sig vel í 2-2 jafnteflisleik.
 
Kristján Guðmundsson þjálfari er að fara til Kaupmannahafnar þar sem hann mun fylgjast með æfingum hjá danska liðinu FCK í um vikutíma.  Hann mun mæta á æfingar, fylgjast með undirbúningi og ræða við þjálfara liðsins um undirbúning fyrir leiki.  Hann mun svo fá aðgang að lokaðri æfingu liðsins fyrir Evrópuleik gegn St. Etienne á Parken.

Kristinn Guðbrandsson hefur verið ráðinn þjálfari Víkings frá Ólafsvík en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið í vikunni.  Kiddi mun þjálfa meistaraflokk Víkings í fyrstu deildinni og 2. flokk félagsins.
 
Simun Samuelsen er á fullu með færeyska landsliðinu um þessar mundir.  Færeyingar gerði jafntefli við Austurríki um síðustu helgi en töpuðu fyrir Litháen á miðvikudag.  Símun meiddist lítillega undir lok leiksins gegn Litháum og þurfti að fara af velli.  Hin stórskemmtilegi færeyski íþróttavefur sportal.fo segir frá atvikinu með fyrirsögninni Traðkaður av vøllinum.

Tómas Karl Kjartansson er þessa dagana til reynslu hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Trelleborg.  Tómas er 18 ára miðvörður sem spilar einnig í stöðu bakvarðar.  Hann lék í sumar með 2. flokki Keflavíkur sem vann sig upp í A-deild og var tvívegis í leikmannahópi meistaraflokks í Landsbankadeildinni.

Þá má nefna að Guðjón Árni Antoníusson gerir upp sumarið á fótbolti.net en þar á bæ hafa menn fengið einn leikmann hvers liðs í Landsbankadeildinni til að rifja upp sumarið hjá sínu liði.