Keflvíkingar í landsliðshópum
Það er mikið um að vera hjá yngri landsliðum Íslands þessa dagana. Verið er að kalla saman úrtaks- og æfingahópa og nota þjálfarar liðanna tækifærið til að skoða hvaða leikmenn eru að ganga upp í aldurshópinn. Við Keflvíkingar eigum nokkurn fjölda leikmanna sem hafa verið kallaðir til æfinga.
Hallgrímur Jónasson er í hópi hjá U21 árs landsliðinu. Hallgrímur er vel að því kominn enda lék hann vel með Keflavíkurliðinu í sumar og lauk því með bikarmeistaratitlinum. Árangur hans er sérstaklega athyglisverður þar sem hann lék í fyrsta sinn á ferlinum sem vinstri bakvörður en hafði áður leikið á miðjunni.
Þeir Högni Helgason, Óttar Steinn Magnússon og Einar Orri Einarsson eru allir í úrtaki hjá U19 ára landsliðinu. Einar Orri var í leikmannahópi meistaraflokks í sumar en þeir Högni og Óttar gengu til liðs við Keflavík á dögunum.
Hjá U17 ára liðinu er Viktor Gíslason fulltrúi Keflavíkur.
Einnig var valinn hópur 16 ára leikmanna og eigum við fjóra leikmenn í þeim hópi enda er 1992 árgangurinn sterkur hjá félaginu. Þetta eru þeir Árni Freyr Ásgeirsson markvörður, Bojan Stefán Ljubicic, Sigurbergur Elísson og Viktor Smári Hafsteinsson.
Hjá U17 ára liði kvenna eru þrjár efnilegar Keflavíkurstúlkur í úrtakshópi. Það eru þær Fanney Þórunn Kristinsdóttir, Helena Rós Þórólfsdóttir og Sigurbjörg Auðunsdóttir.
Við óskum þessu ágæta knattspyrnufólki okkar góðs gengis og vitum að þau eiga eftir að vera okkur til sóma.
Hallgrímur (hinn hárfagri) í bikarúrslitaleiknum gegn KR.
(Mynd frá Víkurfréttum)