Keflvíkingar, mætum á völlinn
Keflavík hefur unnið fyrstu þrjá heimaleiki sína til þessa og vonandi kemur fjórði sigurinn annað kvöld. Aðsóknin á heimaleikina hefur verið þokkaleg en við viljum fleira fólk á völlinn. Á sama tíma í fyrra (2008) höfðu alls 5.395 áhorfendur komið á Sparisjóðsvöllinn eftir þrjá heimaleiki gegn Val, Fylki og ÍA. Núna hafa 3.785 manns að meðaltali mætt á Sparisjóðsvöllinn eftir þrjá heimaleiki gegn FH, Val og Fram. Auðvitað telur leikurinn gegn Fram heima en á þann leik mættu aðeins 878 áhorfendur og er það lítið.
Ekki er ég að kvarta yfir stuðningnum sem við erum að fá á heimavelli og hvað þó á útivelli, síður en svo. Stuðningurinn, bæði hér heima og úti, er frábær og strákarnir í liðinu finna fyrir þvílíkum stuðning og tala um það. Það er snilldin ein að heyra í ykkur hvetja strákana í hverjum leik enda erum við með stórkostlegustu stuðningsmenn á Íslandi.
Strákarnir í liðinu hafa staðið sig vel og það hafið þið gert líka. Leikurinn á morgun er gegn efsta liði Pepsí-deildarinnar, Stjörnunni, sem hefur farið hrikalega vel af stað. Stjarnan er með 12 stig og Keflavík 10 stig. Með góðum stuðningi og góðum leik okkar manna mun þessi staða breytast. Mætið á völlinn og takið alla sem næst ykkur eru með á völlinn.
Við sem að liðinu stöndum hlökkum til að sjá ykkur á morgun.
Áfram Keflavík!
Jón Örvar Arason,
Keflavík FC