Fréttir

Knattspyrna | 29. september 2010

Keflvíkingar með yngri landsliðunum

Nokkrir af okkar ungu og efnilegu leikmönnum hafa verið í eldlínunni með yngri landsliðum Íslands síðastliðna viku.  Arna Lind Kristinsdóttir var með U-17 ára liði kvenna sem lék í undanriðli Evrópukeppninnar en leikið var í Búlgaríu.  Liðið sigraði glæsilega í riðlinum og vann leiki sína gegn Litháen, Búlgaríu og Ítalíu samanlagt 29-1.  Arna Lind var í markinu gegn Litháen og Ítalíu en hvíldi gegn Búlgörum.  Íslenska liðið er þar með komið í milliriðil sem leikinn verður næsta vor en fjögurra liða úrslitakeppni verður í Sviss í júní.

Bergsteinn Magnússon var fyrirliði U-17 ára liðs karla sem vann sinn undanriðil í Evrópukeppninni.  Liðið tapaði fyrir Tékkum, vann síðan Tyrki og tryggði sér síðan sigur í riðlinum með því að sigra Armena 2-1 á Sparisjóðsvellinum okkar.  Íslenska liðið hefur tryggt sér sæti í milliriðli sem leikinn verður í mars en úrslitakeppnin fer fram í Serbíu í maí á næsta ári.

Þeir Árni Freyr Ásgeirsson og Sigurbergur Elísson voru í leikmannahópi U-19 ára landsliðs karla sem lék tvo vináttuleiki gegn N-Írum hér á landi í síðustu viku.  Þegar til kom gat Sigurbergur ekki leikið vegna meiðsla en Árni Freyr lék fyrri leikinn.

Myndirnar með fréttinni eru af Facebook-síðu KSÍ.

 


Íslenska liðið sigraði glæsilega í Búlgaríu. Arna Lind er númer 1!


Arna Lind í Búlgaríu.


Byrjunarliðið gegn Armenum í Keflavík.
Bergsteinn er lengst til hægri í efri röðinni.


Íslenski hópurinn eftir að hafa tryggt sér sigur í riðlinum í Keflavík
.