Keflvíkingar með yngri landsliðunum
Arnór Ingvi Traustason var á skotskónum með U-21 árs landsliðinu á dögunum þegar hann skoraði í 2-0 sigri á Kasakstan í undankeppni EM. Íslenska liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína í riðlinum en þess má geta að Arnór Ingvi hefur tekið þátt í þessum fjórum leikjum og var að skora sitt fyrsta mark með liðinu.
Fleiri Keflvíkingar eru á ferðinni með yngri landsliðunum. Anton Freyr Hauksson er í U-17 landsliðinu sem heldur til Rússlands og leikur þar í undankeppni EM dagana 21.-26. september. Anton Freyr er leikmaður 3. flokks en lék einnig með 2. flokki í sumar. Hann hefur áður leikið með U-17 og U-16 ára landsliðunum.
Tveir leikmenn kvennaliðs Keflavíkur voru í æfingahópi U-17 ára landsliðs kvenna sem æfði í Kópavogi um síðustu helgi en æfingarnar voru undirbúningur fyrir milliriðla EM sem fram fer í Rúmeníu um næstu mánaðarmót. Þetta voru þær Marín Rún Guðmundsdóttir og Una Margrét Einarsdóttir. Þær eru í 3. flokki en léku báðar nokkra leiki með meistaraflokki í sumar.
Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson er svo í U-19 ára landsliðinu sem leikur þessa dagana á æfingamóti í Svíþjóð. Samúel Kári gekk til liðs við Reading í sumar.