Kenneth hættur með Keflavík
Kenneth Gustafsson er hættur hjá Keflavík eftir fjögurra ára veru hjá félaginu. Kenneth kom til okkar um mitt sumar 2005 og hefur síðan leikið 50 deildarleiki, 7 bikarleik og 7 Evrópuleiki fyrir Keflavík. Hann hefur á þessum tímabili verið styrk stoð í vörn liðsins og átt stóran þátt í góðum árangri liðsins undanfarin ár en Kenneth varð bikarmeistari með Keflavík árið 2006. Við þökkum Kenneth fyrir samstarfið og óskum honum góðs gengis í framtíðinni.
Kenneth hefur sent heimasíðunni bréf til stuðningsmanna Keflavíkur sem við birtum hér í íslenskri þýðingu:
"Kæru félagar og stuðningsmenn Keflavíkur,
í dag hef ég fengið samningi mínum við Keflavík rift sem þýðir að ég fer nú frá félaginu. Það geri ég einkum vegna ástandsins sem nú er komið upp á Íslandi og hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtæki í landinu og einnig íþróttafélög.
Ég hef verið í liðinu í 3 1/2 ár og þar hafa skipst á skin og skúrir fyrir mig og félagið. Hápunktarnir á vellinum hafa verið leikirnir gegn Mainz í Evrópukeppninni árið 2005, sigurinn í bikarkeppninni árið 2006 og allt síðasta tímabil (ok, nema tveir síðustu leikirnir...). Utan vallar hef ég eignast marga góða vini hér í bæ, skoðað mest allt Ísland (Gaui segir alltaf að ég hafi séð meira af landinu en hann!), klifið Hvannadalshnjúk þar sem ég brann hressilega í framan, heimsótt Mete fyrir austan, Balla Sig. fyrir norðan, farið til Grænlands og ég gæti haldið lengi áfram... Eins og þið sjáið hefur mér liðið vel í Keflavík en allt verður að taka enda og nú er minn tími kominn.
Ég vil þakka öllum félögum mínum í Keflavíkurliðinu fyrir samveruna, Kristjáni, Kidda G., Rajko, Dóa, Fal, Jóni Örvari, stjórnarmönnum og starfsmönnum félagsins og síðast en ekki síst PUMA-sveitinni, þið sáuð til þess að það var alltaf gaman að spila fyrir Keflavík.
Maður veit aldrei hvað gerist í lífinu, ég gæti komið aftur einhvern daginn en þangað til óska ég liðinu og félaginu alls hins besta og ég er viss um að þið verðið áfram best spilandi fótboltalið Íslands!"
Bestu kveðjur,
Kenneth.
Myndir: Jón Örvar og Víkurfréttir.
Kenneth Ingemar Gustafsson.
Kenneth skorar í sínum fyrsta leik, gegn KR.
Markinu fagnað með félögunum.
Með Keflavík gegn Mainz.
Kenneth á Commerzbank Arena í Franfurt.
Félagarnir Kenneth og Geir fyrir bikarúrslitaleikinn 2006.
Bikarnum fagnað.
Bikarmeistarar Keflavíkur 2006.
Kenneth bregður á leik fyrir ljósmyndarann.
Í golfi með fjölskylduklúbbnum sumarið 2006.
Á æfingu sumarið 2007.
Með "gömlum" í Tyrklandi í apríl 2008.
Síðasti leikur Kenneth fyrir framan 4.000 áhorfendur.