Kjartan fékk gullmerki
Kjartan Másson fékk á dögunum gullmerki Knattspyrnudeildar Keflavíkur. Reyndar átti Kjartan upphaflega að fá merkið í vetur en átti þá ekki heimagengt og fékk því gullmerkið afhent fyrir fyrsta heimaleikinn í Pepsi-deildinni.
Kjartan hefur tengst deildinni í fjöldamörg ár. Hann þjálfaði meistaraflokk karla fyrst árið 1987 þegar hann tók við liðinu undir lok tímabilsins ásamt Guðjóni Ólafssyni og Karli Hermannssyni. Kjartan þjálfaði liðið síðan árin 1991 til 1993 og kom liðinu þá upp í efstu deild og í úrslitaleik bikarkeppninnar. Hann tók síðan aftur við árið 1996 en það ár var ekki búist við miklu af Keflavíkurliðinu. Liðið bjargaði sér hins vegar frá falli á ævintýralegan hátt í lokaumferðinni þar sem Bjargvætturinn kom við sögu. Kjartan brást svo enn við kallinu árið 1999 þegar hann tók við liðinu um mitt sumar og hann þjálfaði Keflavíkurliðið aftur árið 2002. Alls hefur Kjartan stjórnað Keflavík í 100 deildarleikjum, 18 bikarleikjum og fjórum Evrópuleikjum en hann er með næstflesta leiki við stjórnvölinn í öllum keppnum á eftir núverandi þjálfara liðsins, Kristjáni Guðmundssyni.
Auk þjálfunar hefur Kjartan unnið margvísleg störf fyrir Knattspyrnudeild Keflavíkur. Hann hefur m.a. verið vallarstjóri, framkvæmdastjóri deildarinnar auk annarra viðvika sem hann hefur alltaf verið tilbúinn að taka að sér þegar leitað hefur verið til hans.
Það þarf ekki að taka fram að Kjartan hóf þjálfaraferil sinn á heimaslóðum í Vestmannaeyjum og hefur komið víða við á sínum ferli. Auk Keflavíkur hefur hann þjálfað meistaraflokk hjá Reyni S., Víði, Grindavík, ÍBV, HK, Víkingi og ÍK.
Við óskum Kjartani til hamingju með gullmerkið um leið og Knattspyrnudeild þakkar honum framlag hans til félagsins.
Þess má geta að Kjartan fékk gullmerki Keflavíkur fyrr á þessu ári og var myndin hér að neðan tekin við það tilefni. Það var Einar Haraldsson, formaður félagsins, sem afhenti Kjartani merkið.