Knattspyrnumaðurinn Hjálmar Árnason þingmaður
Ég sendi Hjálmari Árnasyni nokkrar spurningar í sambandi við hans knattspyrnuferil. Njótið vel.
1. Hefur þú æft knattspyrnu og þá með hvaða félagi?
Ekki er hægt að segja að ég hafi æft stíft og reglubundið um ævina. Meðan ég bjó sem strákur í Kópavogi æfði ég í 4. og 5. flokki með Breiðabliki. Löngu síðar meðan ég bjó í Hafnarfirði æfði ég með FH-körlum (Old boys). Meðan ég var við FS var kennarafótboltinn ómissandi tvisvar í viku. Sama gilti um æfingar lögreglunnar hér suðurfrá meðan ég var þar í afleysingum. Ótaldar eru þá æfingar og leikir með hinu kratmikla Íþróttafélagi þingmanna.
2. Hvað æfðir þú lengi, og hvaða stöðu?
Ferillinn spannar yfir 40 ár með ótrúlega löngum hléum á milli og segi nú ekki beinlínis að um sé að ræða glæstan feril utan hvað fótbolti er alltaf jafn skemmtilegur. Einhvern veginn þróaðist ég út á vinstri kant í byrjun en færðist aftar eftir því sem árum fjölgaði og úthald minnkaði. Æsingur leiksins rak mann samt alltaf framar á vellinum.
3. Er einhver íslenskur leikmaður frá fyrri tíð þér sérstaklega minnistæður?
Þar hlýtur Ásgeir Sigurvins að vera sem og Jóhannes Eðvaldsson ekki síst eftir markið fræga á móti A-Þjóðverjum (hjólhestaspyrnan). Þó einstakir leikmenn séu frábærir þá finnst mér alltaf skemmtilegast að sjá sterka liðsheild þar sem boltinn rúllar samherja á milli eins og við sáum hjá okkar mönnum í KR-leiknum um daginn.
4. Hver er besti íslenski leikmaðurinn sem þú hefur séð á knattspyrnuleik?
Eiður Smári og sennilega Albert Guðmundsson. Man alltaf eftir því í einhverjum ágóðaleik innanhúss. Albert þá orðinn gamall og þéttur. Hann tók fótboltann, skaut af miðju og beint ofan í körfuhring við enda vallarins. Hann hitti þangað sem hann ætlaði. Margir körfuboltamenn hefðu orðið ánægðir með þetta skot þó tvær hendur hefðu verið notaðar. En Albert SPARKAÐI boltanum.
5. Skoðarðu heimasíðu Keflavíkur reglulega?
Hvers slags spurning er þetta.....? Auðvitað.
6. Hver er besti knattspyrnumaðurinn/konan á þingi?
Flestir afar góðir í að tala um getu sína í fótbolta en minna verður um efndir á vellinum. Samt alltaf jafn skemmtilegur hópur. Líklega eru Magnús Stefánsson og Lúðvík Bergvinsson skástir enda spiluðu þeir báðir í efstu deild á sínum tíma. Mér finnst Maggi ögn betri en líklega er það pólitískt mat. Steingrímur J. er sjálfskipaður forseti félagsins og gegnir því með prýði.
7. Hvernig líst þér á Keflavíkurliðið í dag?
Langt síðan maður hefur séð það jafn skemmtilegt. Ef undan er skilin fyrri hálfleikur á móti FH hafa leikir okkar manna verið frábærir. Sjálfstraustið í fínu lagi, sókndjarfir, spilið fínt og stemmningin góð. Líst vel á Kristján þjálfara. Líka ánægjulegt að sjá hvað leikirnir eru vel sóttir.
8. Hvenær áttu von á að Íslandsmeistaratitillinn fari á loft næst hjá Keflavík?
Það verður gaman að sjá Guðmund Steinarsson lyfta Íslandsmeistarabikarnum á loft á troðfullum vellinum hér í Keflavík haustið 2006.
9. Hvað er skemmtilegasta atvik sem þú hefur orðið vitni að á knattspyrnuvellinum?
Í augnablikinu er það þegar dómarinn flautaði til leiksloka á móti KR um daginn og sigur okkar manna var orðinn staðreynd.
10. Ef þér væri boðið að leika með Keflavíkurliðinu, hvaða stöðu myndir þú spila og af hverju?
Sennilega myndi ég afþakka gott boð af því að ég vil sjá liðið okkar ná sem bestum árangri. Ég væri líklega ekki til að styrkja hópinn. Ætli ég væri ekki áhættuminstur á bekkum.
Fyrstu beinu samskipti mín við Keflavíkurliðið í fótbolta voru líklega í Færeyjum. Þar var ég alltaf á sumrin hjá frændfólki mínu. Líklega 1961 (eða 62) kom Keflavíkurliðið í ferð til Klakksvíkur. Þeir unnu auðvitað og fylltist Íslendingurinn í Klakksvík miklu stolti. Liðinu var svo siglt yfir á næstu eyju með báti í eigu frænda míns og vitanlega fékk hinn stolti Landi að fara með. Skömmu síðar sigldi ég heim til Íslands (tveggja daga ferð) og var liðið með í þeirri för eftir velheppnaða heimsókn í Færeyjum. Leikmenn „slöppuðu“ vel af á heimsiglingunni. Af tillitssemi við leikmenn (sem nú eru orðnir öllu virðulegri og eldri) held ég segi ekki frekar af þeirri heimsiglingu.
Ég vill þakka Hjálmari kærlega fyrir
Rúnar I. Hannah