Fréttir

Knattspyrna | 29. ágúst 2006

Komnir í bikarúrslit!

Keflavíkurliðið tryggði sér sæti í úrslitum VISA-bikarsins með 4-0 sigri á liði Víkings á Laugardalsvelli í gærkvöldi.  Eftir slaka frammistöðu í síðasta leik sýndu okkar menn sitt rétta andlit í ágætum leik sem var jafnari en lokatölurnar gefa til kynna.  Segja má að lykillinn að sigrinum hafi verið sterk liðsheild innan vallar sem utan; strákarnir léku fína knattspyrnu og börðust af krafti og stuðningsmenn Keflavíkur fjölmenntu í Laugardalinn, studdu vel við bakið á liðinu og héldu uppi góðri stemmningu allan leikinn.

Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið áttu góða spretti.  Keflavík spilaði með nokkuð sterkum vindi en Víkingur átti snarpar sóknir á móti vindinum.  Fyrsta dauðafærið leit dagsins ljós strax á 5. mínútu þegar Hólmar Örn átti góða sendingu inn fyrir á Þórarinn en hann flýtti sér fullmikið og skaut vel yfir markið.  Víkingar náðu síðan yfirhöndinni og fengu gott færi eftir um 20 mínútna leik þegar Davíð Þór Rúnarsson slapp upp vinstri kantinn og inn í teig en Ómar varði skot hans vel.  Keflavík svaraði sókn Víkinga á réttan hátt, með því að skora en markið kom úr óvæntri átt.  Eftir snarpa sókn upp hægri kantinn fékk Baldur boltann við vítateigslínuna og laumaði honum inn í teiginn.  Þar kom Jónas á fleygiferð, lagði boltann laglega fyrir sig og skoraði með vinstri fæti undir markmann Víkinga.  Fyrsta bikarmark Jónasar og ekki á hverjum degi sem kappinn kemur tuðrunni í netið!  Eftir markið jafnaðist leikurinn og róaðist nokkuð.  Guðmundur Steinars átti ágætt skot rétt framhjá og Þorvaldur Sveinsson fékk gott færi fyrir Víkinga þegar hann var skyndilega einn með boltann í teignum en skaut framhjá markinu.  Staðan í hálfleik 1-0.

Eins og reikna mátti með byrjuðu Víkingar seinni hálfleikinn á stórsókn með vindinn í bakið.  Viktor Bjarki skaut yfir úr aukaspyrnu og eftir um fimm mínútna leik komust Víkingar næst því að skora þegar Jón Guðbrandsson skaut í neðanverða slána úr dauðafæri.  Mínútu síðar voru okkar menn hins vegar komnir í sókn og eftir þvögu í markteignum þrumaði Guðmundur í stöngina.  Víkingar lögði allt í sölurnar og Ingvar markmaður tók þátt í sókninni þegar hann sparkaði langt fram og vindurinn fleytti boltanum næstum því yfir Ómar sem mátti hafa sig allan við að verja skotið!  Ómar var svo aftur vel á verði þegar hann sló aukaspyrnu Grétars Sigfinns yfir markið.  En aftur svöruðu okkar menn pressunni með því að skora.  Þórarinn bjó markið til með því að leika laglega upp hægri kantinn og renna boltanum fyrir markið þar sem Guðmundur Steinars stökk fram og potaði boltanum yfir línuna.  Glæsilega gert hjá þeim félögum og staðan orðin vænleg.  Skömmu síðar slapp Símun upp vinstri kantinn og inn í teig en þegar hann var um það bil að leika á Ingvar Þór braut markvörðurinn á honum.  Hins vegar sá annars ágætur dómari leiksins ekki ástæðu til að dæma víti en gaf Símun gula spjaldið.  Okkar menn létu það ekkert á sig fá og eftir því sem Víkingar sóttu framar gáfust færi á skyndisóknum.  Eftir eina slíka varð misskilningur milli Grétars og Ingvars og Þórarinn nýtti sér það til hins ítrasta, hirti boltann af þeim og renndi honum framhjá Ingvari.  Rétt á eftir varði Ómar glæsilega frá Herði Bjarnasyni sem slapp í gegnum vörnina.  En á lokamínútum kom fjórða markið og það var vel við hæfi að Guðmundur fyrirliði gerði það.  Hann sendi þá frábæra sendingu upp vinstri kantinn þar sem Branko kom askvaðandi og æddi inn í teig.  Þrátt fyrir að vera kominn í gott færi sýndi hann mikla óeigingirni og renndi boltanum fyrir markið þar sem Guðmundur var mættur, lék í rólegheitunum á varnarmann og setti boltann í markið.  Glæsilegur endir á góðum leik og nú bíður úrslitaleikur við KR eða Þrótt á nýuppgerðum og glæsilegum Laugardalsvelli þann 30. september.

Laugardalsvöllur, 28. ágúst - VISA-bikarinn, undanúrslit
Víkingur 0
Keflavík 4 (Jónas Guðni Sævarsson 22., Guðmundur Steinarsson 71., 90., Þórarinn Kristjánsson 78.)

Keflavík (4-4-2):
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustavsson, Hallgrímur Jónasson - Hólmar Örn Rúnarsson, Baldur Sigurðsson (Magnús Þorsteinsson 90.), Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen (Branko Milicevic 83.) - Þórarinn Kristjánsson (Einar Orri Einarsson 87.), Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Stefán Örn Arnarson, Ragnar Magnússon, Bjarki Þór Frímannsson
Gult spjald: Símun Samuelsen (75.)

Dómari: Garðar Örn Hinriksson
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson
Varadómari: Gylfi Þór Orrason
Eftirlitsmaður: Valur Benediktsson



Guðmundur fyrirliði Steinarsson átti stórleik og skoraði tvö markanna.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir
)