Körfuboltakappinn skipti sköpum hjá Keflavík eldri!
Keflavíkingar léku annan leik sinn á Íslandsmótinu í eldri flokki á þriðjudaginn gegn Stjörnunni, leikið var á Iðavöllum. Keflvíkingar náðu forystunni með marki frá Zoran Daníel Ljubicic á 12. mínútu. Stjörnumenn jöfnuðu á 19. mínútu og var staðan í hálfleik 1-1. Í síðari hálfleik skiptust liðin á að sækja en gekk heldur erfiðlega að koma knettinum í netið, framhjá stórgóðum markvörðum beggja liða. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútu leiksins (70 mín.) að Hjörtur Harðarson (betur þekktur fyrir þriggja stiga körfur) gerði sigurmarkið. Markið var stórglæsilegt hjá pilti, fyrirgjöf kom frá hægri og var Hjörtur mættur við nærstöng þar sem hann lagði knöttinn í hornið fjær með hælspyrnu aftur fyrir stoðfót (a la Zidane). Nokkrum andartökum síðar flautaði ágætur dómari leiksins Björn Geir Másson til leiksloka. Enn einn sigurinn í höfn hjá eldra liði Keflavíkur sem er á toppnum í deildinni. Næsti leikur liðsins verður í Sandgerði gegn Reynismönnum sunnudaginn 24. júní kl. 20:00.
Lið Keflavíkur:
Ívar Guðmundsson (m), Georg Birgisson, Haukur Benediktsson, Jón Ingi Jónsson, Karl Finnbogason, Garðar Már Newman, Kristinn Guðbrandsson, Jóhann Steinarsson, Zoran Daníel Ljubicic, Sigmar Scheving, Ólafur Gylfason, Unnar Sigurðsson, Hjörtur Hjartarson, Þröstur Ástþórsson, Jóhann Magnússon og Gunnar Magnús Jónsson.
Þjálfari: Kjartan Másson
Leikskýrsla á ksi.is
Staðan í deildinni
Maður leiksins: Ívar Guðmundsson sem lék í fyrsta sinn á ferlinum í marki. Pilturinn stóð sig frábærlega og bjargaði oft á snilldarlegan og yfirvegaðan hátt.
Tilþrif leiksins: Sigurmark Hjartar Harðarsonar fer í sögubækurnar fyrir frábæra útsjónarsemi og afburðartækni.
Hjörtur Harðarson gerði sigurmarkið, réttur maður á réttum stað.