KR - Keflavík á mánudag
Þá er loksins komið að stóru stundinni og Landsbankadeildin er hafin. Keflavík leikur sinn fyrsta leik á mánudag þegar við heimsækjum KR-inga í Vesturbæinn. Leikurinn hefst kl. 20:00 og er sýndur beint á Sýn. Það verður örugglega hart barist í Frostaskjólinu enda ætla bæði lið sér að vera í toppbaráttunni í sumar. KR-ingar hafa fengið þó nokkurn liðsstyrk fyrir sumarið; Pétur Marteinsson er kominn úr atvinnumennskunni, Atli Jóhannesson kom frá ÍBV og þeir Jóhann Þórhallsson og Óskar Hauksson komu frá Grindavík. Eins og fram hefur komið hefur okkar lið átt í meiðslum og ljóst að lykilmenn verða að týnast inn í hópinn í fyrstu umferðum deildarinnar. Okkar menn mæta þó galvaskir til leiks eins og venjulega enda engin ástæða til annars. Það má reikna með skemmtilegum leik eins og alltaf þegar þessi lið mætast. Keflavík hefur átt góðu gengi að fagna í heimavelli KR undanfarin ár; í síðustu tíu leikjum þar í deildinni hefur Keflavík sigrað þrisvar sinnum en KR-ingar tvisvar og fimm leikjanna hefur lokið með jafntefli. Í leikjunum tíu hafa verið skorað 31 mark. Dómari á KR-vellinum verður Egill Már Markússon, aðstoðardómarar Einar Sigurðsson og Gunnar Gylfason. Varadómari er Garðar Örn Hinriksson og eftirlitsmaður KSÍ verður Eysteinn B. Guðmundsson .
Keflavík og KR hafa leikið 81 leik í efstu deild, þann fyrsta árið 1958. Jafnræði hefur verið með liðunum í gegnum árin, Keflavík hefur sigrað í 30 leikjum en KR í 27 leikjum, 24 leikjanna hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 113-122, KR í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í innbyrðis leikjum liðanna var 5-1 sigur á Keflavíkurvelli árið 1974. Stærsti sigur KR-inga er hins vegar 8-1 árið 1960 og það er jafnframt mesti markaleikur þessara liða. Sex leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn KR í efstu deild; Guðmundur Steinarsson hefur skorað sex mörk, Þórarinn Kristjánsson fjögur og þeir Baldur Sigurðsson, Kenneth Gustavsson, Magnús Þorsteinsson og Símun Samuelsen eitt mark hver.
Liðin hafa mæst 11 sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1963 og síðast í úrslitaleiknum í fyrra. Keflavík hefur unnið 5 bikarleiki en KR 6. Markatalan í bikarnum er 18-23 fyrir KR. Guðmundur Steinarsson, Guðjón Árni Antoníusson og Baldur Sigurðsson hafa allir skorað eitt bikarmark gegn KR, Guðmundur í leik liðanna árið 2000 sem lauk með 2-1 sigri Keflvíkinga og Guðjón og Baldur í úrslitunum síðasta sumar.
Liðin léku þrisvar í síðasta tímabili. Keflavík vann deildarleikinn í Keflavík 3-0 með mörkum frá Magnúsi Þorsteinssyni, Danny Severino og Símun Samuelsen. Liðin gerðu síðan 2-2 jafntefli á KR-velli þar sem Guðmundur Steinarsson og Þórarinn Kristjánsson skoruðu. Síðast en ekki síst vann Keflavík svo úrslitaleikinn í VISA-bikarnum 2-0 en þar gerðu Guðjón Árni Antoníusson og Baldur Sigurðsson mörkin.
Nokkrir leikmenn hafa leikið með bæði Keflavík og KR og ekki síður hafa félögin deilt sömu þjálfurunum. Guðni Kjartansson, Hólmbert Friðjónsson, Ian Ross og Pétur Pétursson hafa allir þjálfað bæði liðin. Upp úr 1990 var hálfgerð Keflavíkurnýlenda í Vesturbænum þegar Ólafur Gottskálksson, Sigurður Björgvinsson, Gunnar Oddsson og Ragnar Margeirsson léku þar allir undir stjórn Guðna. Sonur Guðna, Haukur Ingi, hefur einnig leikið fyrir Keflavík og KR og seinni árin hafa Stefán Gíslason og markmennirnir Bjarki Freyr Guðmundsson og Gunnleifur Gunnleifsson skipt milli þessara liða.
Úrslit í leikjum KR og Keflavíkur í Vesturbænum hafa orðið þessi undanfarin ár:
2006 |
KR - Keflavík |
2-2 | Guðmundur Steinarsson Þórarinn Kristjánsson | ||
2005 |
KR - Keflavík |
1-3 | Kenneth Gustavsson Baldur Sigurðsson Hörður Sveinsson | ||
2004 |
KR - Keflavík |
1-1 | Hólmar Örn Rúnarsson | ||
2002 |
KR - Keflavík |
2-2 | Haukur Ingi Guðnason Hólmar Örn Rúnarsson | ||
2001 |
KR - Keflavík |
2-0 | |||
2000 |
KR - Keflavík |
2-3 | Guðmundur Steinarsson 2 Kristján Brooks | ||
1999 |
KR - Keflavík |
3-2 | Þórarinn Kristjánsson Kristján Brooks | ||
1998 |
KR - Keflavík |
0-0 | |||
1997 |
KR - Keflavík |
1-2 | Eysteinn Hauksson Jóhann B. Guðmundsson | ||
1996 |
KR - Keflavík |
1-1 | Jóhann B. Magnússon |