KR - Keflavík á mánudag kl. 19:15
Nú er komið að stórleik í Pepsi-deildinni sem er um leið upphitun fyrir bikarúrslitaleikinn um næstu helgi. Okkar menn heimsækja nefnilega KR-inga í 15. umferðinni en leikurinn verður á KR-vellinum mánudaginn 11. ágúst og hefst kl. 19:15. Fyrir leikinn er Keflavík í 6. sæti deildarinnar með 18 stig en KR er í 4. sætinu með 23 stig. Leikir þessara liða eru yfirleitt fjörugir og dramatískir og að sjálfsögðu reiknum við með að stuðningsmenn fjölmenni. Dómari leiksins verður Valdimar Pálsson, aðstoðardómarar Jóhann Gunnar Guðmundsson og Björn Valdimarsson og eftirlitsmaður KSÍ verður Sigurður Hannesson.
Efsta deild
Keflavík og KR hafa leikið 96 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1958. Nokkuð jafnræði hefur verið með liðunum í gegnum árin, Keflavík hefur sigrað í 32 leikjum og KR í 35 en 29 leikjanna hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 128-149, KR í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í innbyrðis leikjum liðanna var 5-1 sigur á Keflavíkurvelli árið 1974. Stærsti sigur KR-inga er hins vegar 8-1 árið 1960 og það er jafnframt mesti markaleikur þessara liða. Fimm leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn KR í efstu deild; Hörður Sveinsson hefur skorað þrjú mörk, Jóhann B. Guðmundsson tvö og þeir Frans Elvarsson, Magnús Þórir Matthíasson og Magnús Þorsteinsson eitt mark hver. Það er hins vegar Guðmundur Steinarsson sem hefur gert flest mörk fyrir Keflavík gegn KR í efstu deild eða 12, næstir eru Jón Ólafur Jónsson og Steinar Jóhannsson með 8 mörk hvor.
Bikarkeppnin
Liðin hafa mæst 12 sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1963 og síðast í úrslitaleik keppninnar í fyrra. Keflavík hefur unnið 5 bikarleiki en KR 7. Markatalan í bikarnum er 20-26 fyrir KR. Hörður Sveinsson, Guðjón Árni Antoníusson og Magnús Þórir Matthíasson hafa allir skorað eitt bikarmark gegn KR en mörk Harðar og Guðjóns komu í úrslitaleikjum liðanna árin 2014 og 2006. Ragnar Margeirsson hefur gert flest bikarmörk gegn KR en þau voru þrjú talsins.
Síðast
Fyrr í sumar mættust á Nettó-vellinum og þar gerðu KR-ingar eina mark leiksins en það gerði Óskar Örn Hauksson í blálokin.
Bæði lið
Þó nokkrir leikmenn hafa leikið með bæði Keflavík og KR í gegnum árin og ekki síður hafa félögin deilt sömu þjálfurunum. Guðni Kjartansson, Hólmbert Friðjónsson, Ian Ross, Pétur Pétursson og Willum Þór Þórsson hafa allir þjálfað bæði liðin. Upp úr 1990 var hálfgerð Keflavíkurnýlenda í Vesturbænum þegar Ólafur Gottskálksson, Sigurður Björgvinsson, Gunnar Oddsson og Ragnar Margeirsson léku þar allir undir stjórn Guðna. Seinni árin hafa Haukur Ingi Guðnason, Stefán Gíslason og markmennirnir Bjarki Freyr Guðmundsson og Gunnleifur Gunnleifsson skipt milli þessara liða. Tveir fyrrverandi leikmenn okkar, Baldur Sigurðsson og Jónas Guðni Sævarsson, leika nú með KR.
Úrslit í leikjum KR og Keflavíkur á heimavelli KR-inga hafa orðið þessi undanfarin ár:
2013 | KR - Keflavík | 3-0 | |
2012 | KR - Keflavík | 3-0 | |
2011 | KR - Keflavík | 1-1 | Hilmar Geir Eiðsson |
2010 | KR - Keflavík | 0-0 | |
2009 | KR - Keflavík | 4-1 | Alen Sutej |
2008 | KR - Keflavík | 2-2 |
Guðmundur Steinarsson Jón Gunnar Eysteinsson |
2007 | KR - Keflavík | 1-2 |
Guðmundur Steinarsson Símun Samuelsen |
2006 | KR - Keflavík | 2-2 |
Guðmundur Steinarsson Þórarinn Kristjánsson |
2005 | KR - Keflavík | 1-3 |
Kenneth Gustafsson Baldur Sigurðsson Hörður Sveinsson |
2004 | KR - Keflavík | 1-1 | Hólmar Örn Rúnarsson |
Leikurinn
Að þessu sinni rifjum við upp eftirminnilegan Keflavíkursigur á KR-vellinum árið 1997. Keflavík vann þá fyrstu sex leiki sína í deildinni og sjötti sigurinn var einmitt 2-1 sigur á KR-velli. Liðið hélt reyndar ekki út í deildinni en vann bikarinn eftir tvo eftirminnilega leiki gegn ÍBV. Meðal leikmanna Keflavíkur í leiknum var enginn annar en Jóhann Birnir Guðmundsson en aðrir leikmenn voru m.a. Ólafur Gottskálksson, Kristinn Guðbrandsson, Ragnar Steinarsson, Gunnar Oddsson, Haukur Ingi Guðnason, Gestur Gylfason og Guðmundur Steinarsson sem kom inn á sem varamaður. Í liði KR voru kappar eins og Kristján Finnbogason, Brynjar Björn Gunnarsson, Guðmundur Benediktsson og Ríkharður Daðason auk tveggja þekktra þjálfara, Heimis Guðjónssonar og Ólafs Kristjánssonar.
Hér að neðan er frásögn Morgunblaðsins af leiknum. Smellið á fréttina fyrir neðan til að sjá stærri útgáfu.