KR - Keflavík á sunnudag kl. 19:15
Sunnudaginn 8. maí fara okkar menn í Vesturbæinn og heimsækja KR-inga í 2. umferð Pepsi-deildarinnar. Leikurinn fer fram á KR-velli við Frostaskjól og hefst kl. 19:15. Það þarf ekki að taka fram að leikir þessara liða eru alltaf stórskemmtilegir og hart tekist á. Bæði liðin unnu sína leiki í fyrstu umerðinni og vilja að sjálfsögðu fylgja því eftir með sigri. Dómari leiksins verður Gunnar Jarl Jónsson og aðstoðardómarar þeir Áskell Þór Gíslason og Smári Stefánsson. Björn Guðbjörnsson er eftirlitsmaður KSÍ.
Keflavík og KR hafa leikið 89 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1958. Jafnræði hefur verið með liðunum í gegnum árin, Keflavík hefur sigrað í 32 leikjum en KR í 30 leikjum, 27 leikjanna hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 124-135, KR í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í innbyrðis leikjum liðanna var 5-1 sigur á Keflavíkurvelli árið 1974. Stærsti sigur KR-inga er hins vegar 8-1 árið 1960 og það er jafnframt mesti markaleikur þessara liða. Fjórir leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn KR í efstu deild; Guðmundur Steinarsson hefur skorað ellefu mörk gegn KR, Jóhann B. Guðmundsson tvö og þeir Magnús Þorsteinsson og Haukur Ingi Guðnason eitt mark hvor.
Liðin hafa mæst 11 sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1963 og síðast í úrslitaleiknum árið 2006. Keflavík hefur unnið 5 bikarleiki en KR 6. Markatalan í bikarnum er 18-23 fyrir KR. Guðmundur Steinarsson og Guðjón Antoníusson hefur skorað eitt bikarmark gegn KR en mark Guðjóns kom einmitt í úrslitaleiknum árið 2006 þegar Keflavík vann 2-0.
Liðin mættust tvisvar í Pepsi-deildinni í fyrra eins og lög gera ráð fyrir. Fyrri leiknum á KR-velli lauk með markalausu jafntefli en KR vann seinni leikinn þar sem Kjartan Henry Finnbogason gerði eina mark leiksins.
Þó nokkrir leikmenn hafa leikið með bæði Keflavík og KR í gegnum árin og ekki síður hafa félögin deilt sömu þjálfurunum. Guðni Kjartansson, Hólmbert Friðjónsson, Ian Ross og Pétur Pétursson hafa allir þjálfað bæði liðin. Upp úr 1990 var hálfgerð Keflavíkurnýlenda í Vesturbænum þegar Ólafur Gottskálksson, Sigurður Björgvinsson, Gunnar Oddsson og Ragnar Margeirsson léku þar allir undir stjórn Guðna. Seinni árin hafa Stefán Gíslason, Jónas Guðni Sævarsson og markmennirnir Bjarki Freyr Guðmundsson og Gunnleifur Gunnleifsson skipt milli þessara liða. Haukur Ingi Guðnason og Grétar Hjartarson léku á sínum tíma með KR og einn fyrrverandi leikmaður okkar, Baldur Sigurðsson, leikur nú með liðinu.
Úrslit í leikjum KR og Keflavíkur í Vesturbænum hafa orðið þessi undanfarin ár:
2010 |
KR - Keflavík |
0-0 | |||
2009 |
KR - Keflavík |
1-4 | Alen Sutej | ||
2008 |
KR - Keflavík |
2-2 | Guðmundur Steinarsson Jón Gunnar Eysteinsson | ||
2007 |
KR - Keflavík |
1-2 | Guðmundur Steinarsson Símun Samuelsen | ||
2006 |
KR - Keflavík |
2-2 | Guðmundur Steinarsson Þórarinn Kristjánsson | ||
2005 |
KR - Keflavík |
1-3 | Kenneth Gustavsson Baldur Sigurðsson Hörður Sveinsson | ||
2004 |
KR - Keflavík |
1-1 | Hólmar Örn Rúnarsson | ||
2002 |
KR - Keflavík |
2-2 | Haukur Ingi Guðnason Hólmar Örn Rúnarsson | ||
2001 |
KR - Keflavík |
2-0 | |||
2000 |
KR - Keflavík |
2-3 | Guðmundur Steinarsson 2 Kristján Brooks | ||
1999 |
KR - Keflavík |
3-2 | Þórarinn Kristjánsson Kristján Brooks |