Fréttir

Knattspyrna | 22. maí 2009

Kristján 100.!

Þeir sem tóku eftir í Íslandssögutímum muna sjálfsagt eftir Kristjáni 10. sem var konungur Dana og þar með Íslendinga þegar Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði árið 1944.  Nú getum við Keflvíkingar gert betur og bjóðum upp á Kristján 100.!  Þjálfarinn okkar, Kristján Guðmundsson, stýrir liðinu nefnilega í 100. sinn í opinberum leik þegar Keflavík tekur á móti Fram í Pepsi-deildinni.  Kristján hóf störf hjá Keflavík árið 2005 og þá sem aðstoðarþjálfari.  Rétt fyrir upphaf móts tók hann síðan við sem aðalþjálfari liðsins með litlum fyrirvara og það er óhætt að segja að hann hafi reynst okkur sannkallaður happafengur.  Kristján hefur nú stýrt Keflavík í 78 leikjum í efstu deild, 11 bikarleikjum og 10 Evrópuleikjum.  Auk þessara opinberu leikja hefur hann stjórnað liðinu í 30 leikjum í deildarbikarnum og óteljandi æfingaleikjum.  Við óskum Kristjáni til hamingju með þennan skemmtilega áfanga og vonum að leikirnir eigi eftir að verða miklu fleiri.


Kristján þakkar stuðningsmönnum fyrir eftir sigurleikinn gegn Val á dögunum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)