Fréttir

Kristján áfram með Keflavík
Knattspyrna | 20. október 2014

Kristján áfram með Keflavík

Búið er að ganga frá því að Kristján Guðmundsson verði áfram þjálfari meistaraflokks Keflavíkur en hann hefur gert nýjan tveggja ára samning.  Mikil ánægja hefur ríkt með störf Kristjáns hjá Knattspyrnudeildinni og því er það ánægjulegt að hann verði áfram með liðið.

Kristján þjálfaði Keflavík fyrst árið 2005 og var þá með liðið út árið 2009.  Hann gerði Keflavík m.a. að bikarmeisturum árið 2006 og árið 2008 var liðið í 2. sæti deildarinnar.  Kristján tók svo aftur við liðinu um mitt síðasta sumar og hefur stjórnað því síðan.  Þess má geta að hann hefur stýrt Keflavík í 167 leikjum og er með langflesta leiki sem þjálfari liðsins.  Kristján hefur stjórnað Keflavík í 135 leikjum í efstu deild, 20 bikarleikjum og 12 Evrópuleikjum og er með flesta leiki við stjórnvölinn hjá félaginu í öllum þessum keppnum.  Kristján hefur einnig þjálfað ÍR, Þór og Val á Íslandi en auk þess var hann með HB í Færeyjum í eitt ár.