Kristján Guðmundsson þjálfari svarar nokkrum..
Við fengum hinn geðþekka þjálfara Keflavíkurliðsins hann Kristján Guðmundsson að svara nokkrum spurningum um eitt og annað.
Sæll Kristján og hvernig hefurðu það?
Hef það bara gott þakka þér fyrir. Pakksaddur í bili eftir KR leikinn.
KR...við vinnum alltaf KR.... af hverju?
KR er stórveldi og það er alltaf gaman fyrir dreifbýlismanninn að vinna ReykjavíkurStórveldið.
Hvað varstu ánægðastur með í leiknum gegn KR?
Blönduna af baráttu leikmanna samfara því að spila oft á tíðum góða knattspyrnu.
Er Kenneth tilbúinn núna í heilan leik?
Því miður þá eru meiðslin þess eðlis að svo er ekki. Hann tekur vonandi eitthvað þátt í næstu leikjum enda þétt leikjadagskrá framundan og við keyrum honum hægt og bítandi inn í liðið.
Eru Haddi og Tóti bara vælukjóar eða eitthvað annað?
Tóti var verulega óheppinn að verða fyrir þrumuskoti frá “Bomma” á æfingu og meiðast þegar allt leit út fyrir að vera komið í lag hjá honum. Tóti fer brátt að spila með okkur á ný. Málið með Hadda er að nú fara læknar brátt að verða ráðþrota við meiðslum drengsins. Þó er búið að vinna vel með bakið á honum og það orðið nokkuð gott en það er nárinn og lærið sem angra hann ennþá. Haddi er þó alvöru nagli og ég veit að hann verður í góðu lagi, þetta er einungis spurning um tíma hvenær hann dettur inn og þá tekur hann deildina með trukki !
Hvernig munt þú undirbúa liðið gegn FH í næsta leik og eigum við möguleika gegn Íslandsmeisturunum á þeirra heimavelli?
Við munum halda áfram að vinna í þeim hlutum sem við gerum vel úti á vellinum og reynum að hafa liðsmenn í góðu andlegu jafnvægi er þeir stíga inná Krikann á mánudag. Við eigum alltaf möguleika í öllum leikjum er við spilum og nú er bara að trúa því að við séum góðir og verðum það í öllum leikjum sem við spilum.
Ertu sáttur við byrjunina það sem af er Íslandsmóti ?
Það má alveg sætta sig þessa byrjun hjá okkur þó Eyjaleikurinn hafi verið arfaslakur og þar af leiðandi varð Víkingsleikurinn bara spurning um að ná í fyrstu stigin til að koma okkur af stað í mótinu. Við erum aðeins á eftir áætlun stigalega en spilamennskan og baráttan í tveimur siðustu leikjum hefur alveg verið ásættanleg.
Hvernig fer leikurinn á móti FH?
Mig minnir að við vinnum 2-1 eða 3-1.
Eitthvað sem þú vilt koma að til okkar allra?
Neikvæðar hugsanir setja upp hindranir !
Jákvæðar hugsanir gefa möguleika !!