Fréttir

Knattspyrna | 20. nóvember 2008

Kristján og Einar Ásbjörn þjálfa

Kristján Guðmundsson hefur framlengt samning sinn sem þjálfari meistaraflokks karla til þriggja ára og þá hefur Einar Ásbjörn Ólafsson verið ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins. 

Kristján tók við Keflavíkurliðinu vorið 2005 þegar þáverandi þjálfari liðsins hvarf óvænt á braut.  Gengi liðsins hefur verið gott undir stjórn hans, liðið varð bikarmeistari árið 2006, var hársbreidd frá Íslandsmeistaratitlinum í ár og hefur staðið sig prýðilega í Evrópukeppnum undir stjórn Kristjáns.  Keflavík hefur leikið 76 leiki undir stjórn Kristjáns í efstu deild og hafa 32 unnist, jafntefli eru 22 og töpin eru einnig 22.  Markatalan er 138-114.  Þá hefur Kristján stjórnað liðinu í 11 bikarleikjum og unnið 8, tapað þremur og markatalan er 26-15.  Liðið lék einnig í Evrópukeppnum árin 2005-2007.  Þar er árangurinn 4 sigrar, 4 töp og 2 jafntefli í tíu leikjum, markatalan er 17-15.

Einar Ásbjörn þarf ekki að kynna fyrir stuðningsmönnum Keflavíkur en hann lék með liðinu á árunum 1976-1994 með hléum.  Alls lék hann 140 leiki í efstu deild og skoraði í þeim 24 mörk.

Við óskum þeim Kristján og Einari góðs gengis í sínum störfum.


Einar Ásbjörn, Kristján og Þorsteinn formaður.
(Mynd:
Víkurfréttir)