Kveðja frá Möltu
Komum seint til Möltu á þriðjudagskvöldið og menn lögðust flestir á koddann sinn þegar á hótelið var komið. Hótelið er mjög gott og herbergin fín.
Miðvikudagsmorgunn og menn vöknuðu snemma í morgunmatinn. Fundur með Kristjáni þjálfara kl. 10:30. Frjáls tími var fram að æfingu í dag og margir fengu sér gönguferð við nágrenni hótelsins en þó ekki lengi. Hitinn úti er mjög mikill og menn geta bara ekki verið mikið úti við. Sundlaugin á hótelinu er líka notuð og fólkið að sóla sig. Munum æfa kl. 17:30 í dag á vellinum sem við spilum við Valletta á morgun. Margir strákanna eru nú í slökun þegar þetta er skrifað, tveimur klukkustundum fyrir æfingu.
Jæja, þá er æfingu lokið og strákarnir komnir á hótelið. Æft var í 29 stiga hita og smá golu sem bjargaði miklu. Létt æfing og skemmtileg hjá Kristjáni og Einari Ásbirni sem varði í um eina klukkustund. Allir heilir í leikmannahópnum. En þess má geta að Jóhann Birnir og Haukur Ingi komu ekki með liðinu út vegna meiðsla. Strákarnir segja að þetta sé gott gervigras svo að það ætti ekki að trufla þá mikið. Öll aðstaða þokkaleg svo að það á ekkert að fara illa um okkur á morgun. Hittum UEFA-eftirlitsmannin sem verður á leiknum, ræddum við hann um vatnspásu sem hann tók vel í og ræðum við þetta á UEFA fundinum í fyrramálið við dómarana, sem koma frá Svartfjallalandi. Jón Örvar og Hjördís fara á þennan fund sem hefst kl. 10:00 á leikdeginum. Núna eru strákarnir í rólegheitunum á hótelinu, spila og gera annað skemmtilegt.
Stjórnarfólkið okkar er nú í kvöldverðarboði hjá stjórnarmönnum Valletta FC en þetta tíðkast í öllum Evrópuleikjum.
Á meðan leik stendur verður fotbolti.net með upplýsingar um gang mála, svo endilega fylgist með á þeirri frábæru síðu, en leikurinn hefst kl 15.30 á íslenskum tíma.
Eftir leik mun verða skrifuð smá umfjöllun um leikinn og verður sett fljótlega inná síðuna.
Kveðja til allra heima og áfram Keflavík.
Strákarnir á æfingu í dag.
Völlurinn sem við munum spila á gegn Valletta.
Það er fallegt á Möltu.