Fréttir

Kveðjuhóf fyrir Samúel Kára
Knattspyrna | 21. mars 2013

Kveðjuhóf fyrir Samúel Kára

Eins og fram hefur komið er Samúel Kári Friðjónsson, leikmaður Keflavíkur, á leið til Englands þar sem hann gengur til liðs við úrvalsdeildarlið Reading.

Áður en Samúel Kári hélt út til Englands var haldið kveðjuhóf fyrir hann í félagsheimili Keflavíkur að Sunnubraut.  Þar söfnuðust saman leikmenn 2. flokks Keflavíkur/Njarðvíkur og leikmenn 3. flokks Keflavíkur.

Þar horfði hópurinn saman á leik Barcelona og AC Milan í meistaradeild Evrópu.  Í hálfleik var Samúel síðan kallaður upp og honum afhentar nokkrar gjafir til þess að minna hann í tímann sem hann hefur átt með Keflavík.

Óskar Rúnarsson, aðstoðarþjálfari 3. flokks, sagði nokkur orð ásamt því að hann og Haukur Benediktsson, þjálfari 3.flokks, afhentu Samúel að gjöf frá strákunum Keflavíkur-sængurver ásamt áritaðri mynd frá öllum leikmönnum 2. flokks úr síðasta leik hans í bili með Keflavík.

Smári Helgason, formaður barna- og unglingaráðs, sagði einnig nokkur orð ásamt því að færa Samúel gjafir.