Fréttir

Knattspyrna | 18. maí 2005

Kvennaliðið fer vel af stað

Keflavíkurstúlkur byrjuðu með krafti í Landsbankadeildinni er þær sigruðu FH 2-0 í gærkvöldi.  Mikil spenna og eftirvænting hefur verið í gangi innan félagsins því mörg ár eru liðin frá því Keflavík átti síðast lið í efstu deild kvenna.

Leikurinn var opinn og bar þess merki að tímabilið er rétt að hefjast.  Keflvík spilaði á móti vindi í fyrri hálfleik en réði þó ferðinni og sýndi liðið fína baráttu.  Ólöf Pálsdóttir skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 40. mínútu með ágætu skoti við markteig eftir að markmaður FH-inga missti knöttinn undir pressu.

Í seinni hálfleik hélt Keflavík áfram pressu sinni án þess þó að ná að brjóta FH-liðið aftur.  Komust FH-ingar meira inn í leikinn er líða tók á hálfleikinn þegar miðja Keflavíkurliðsins fór að gefa eftir og munaði tvisvar minnstu að FH næði að setja mark.  En Keflavík hélt sínu með góðum varnarleik sem Björg Ásta stýrði allan leikinn af mikilli röggsemi.  Á 79. mínútu skoraði Ólöf Pálsdóttir sitt annað mark eftir að hafa sýnt mikla áræðni og þar við sat.

Sigurinn var sætur og mikilvægt að vinna "þessa" leiki. Framundan eru þó margir leikir og réttast að taka einn leik fyrir í einu.
Næsti leikur verður gegn Breiðablik í Kópavogi nk. laugardag kl. 12:00.

Myndir: Jón Örvar Arason


Keflavíkurstúlkur fagna fyrra marki sínu.


Liðið í gærkvöldi.


Doddi stórnaði stelpunum af bekknum.


Hætta við mark FH.


Mark í uppsiglingu...


...og boltinn í netinu, 1-0.