Fréttir

Knattspyrna | 25. ágúst 2004

Kvennaliðið í úrslitaleikinn

Keflavík færðist nær takmarki sínu er liðið gerði jafntefli í seinni leik undanúrslitaleikja við Þrótt í gærkvöldi.  Keflavík fór með sigur af hólmi 4-3 í fyrri leik liðanna s.l. laugardag og dugði því jafntefli í seinni leiknum.  Keflavík og ÍA leika því til úrslita í 1. deild kvenna á laugardaginn kl. 14:00 og fer leikurinn fram á hlutlausum velli.   Liðið sem sigrar þann leik fer upp í úrvalsdeild en liðið sem tapar leikur aukaleiki gegn næstneðsta liði úrvalsdeildarinnar um laust sæti í efstu deild.

Björg Ásta Þórðardóttir í baráttu við einn leikmann Þróttar.
(Mynd: Héðinn Eiríksson /
Víkurfréttir)

Leikurinn hófst með stórsóknum Keflavíkur sem virtust vera vel stemmdar.  Ólöf Pálsdóttir skorðaði strax í fyrstu mínútum er hún lagði boltann framhjá góðum markmanni Þróttar.  Héldu fjölmargir áhorfendur að leikurinn mundi þróast Keflavík í vil en annað kom á daginn.  Þróttur skoraði með eina skoti sínu á 30 mínútu.  Jafnt var á með liðunum í leikhléi.  Í upphafi var greinilegt að Þróttur ætlaði að selja sig dýrt og börðust eins og ljón.  Þróttur náði að setja inn annað mark og komast yfir 1-2.  Virtist Keflavíkurliðið vera mjög stressað og Þróttarar náðu að pressa um allan völl.  Ef Þróttur hefði sett þriðja markið hefði það dugað til slá Keflavík út.  En síðustu 15 mínúturnar komu Keflavíkurstúlkur sterkar inn og héldu haus.  Ólöf komst ein í gegn og setti boltann framhjá markmanni Þróttar og jafnaði leikinn.  Er ekki laust við að fjölmargir áhorfendur sem og leikmenn Keflavíkur hafi andað léttar.  Jafntefli og Keflavík komið í úrslitaleikinn á móti ÍA frá Akranesi, en ÍA bar sigurorð af Sindra frá Hornafirði samtals 15-0.  Vel gert Keflavíkurstúlkur.

Keflavík bar sigurorð af liði Þróttar á Valbjarnarvelli í fyrri leik liðana í undanúrslitunum.  Var sigur Keflavíkur öruggari en tölurnar gefa til kynna.  Keflavík byrjaði með miklum krafti og kom Guðný Þórðardóttir þeim yfir eftir að hafa komist ein inn fyrir vörn Þróttar.  Ólöf Pálsdóttir kom Keflavík í 2-0 þegar hún komst í gegnum vörn Þróttar.  Þróttarar minnkuðu muninn með slyslegu marki en Keflavík lét það ekki slá sig út af laginu heldur sett tvö mörk áður en fyrri hálfleikur var allur, Guðný og Ólöf settu sitt markið hvor til viðbótar og komu Keflavík í 4-1.  Seinni hálfleikur þróaðist þannig að Keflavík dró sig aftar á völlinn til að ná að halda fengnum hlut; jók það pressu Þróttara á mark Keflavíkur og áður en leik lauk hafði Þróttur náð að setja tvö mörk og minnka muninn í eitt mark.  Sigur Keflavíkur var góður og gaf liðinu gott forskot í seinni leik liðana en þó hleyptu þær Þrótti óþarflega nálægt sér.