Langþráður heimasigur
Keflavík sigraði loksins heimaleik þegar Grindvíkingar komu í heimsókn á Nettó-völlinní 13. umferð Pepsi-deildarinnar. Lokatölur urðu 2-1 okkar liði í vil og komu öll mörkin í seinni hálfleik. Sigurbergur Elísson kom Keflavík yfir á 60. mínútu en Pape Mamadou Faye jafnaði á þeirri 74. Það var svo Magnús Þorsteinsson sem tryggði okkur langþráðan heimasigur með marki undir lok leiksins.
Eftir leikinn er Keflavík í 7.-9. sæti deildarinnar með 18 stig. Næsti leikur er útileikur gegn Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabæ miðvikudaginn 8. ágúst kl. 20:00.
-
Leikurinn var 32. leikur Keflavíkur og Grindavíkur í efstu deild. Þetta var 15. sigur Keflavíkur, Grindavík hefur unnið 10 leiki og sjö sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 50-39 fyrir Keflavík.
-
Keflavík vann annan af sjö heimaleikjum sínum það sem af er sumri. Fyrri sigurinn kom gegn ÍBV í 5. umferð deildarinnar þann 24. maí. Það voru því liðnir 67 dagar frá síðasta heimasigri okkar...
-
Sigurbergur Elísson skoraði annað mark sitt í efstu deild en það fyrra kom gegn Bikum í dögunum.
-
Magnús Þorsteinsson skoraði annað mark sitt í sumar og 25. markið í efstu deild og er þar með orðinn 12. markahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi. Sigurmark Magnúsar var það fimmta sem hann skorar gegn Grindavík,
-
Magnús lék jafnframt sinn 172. leik í efstu deild fyrir Keflavík og er nú kominn í 5.-6. sæti yfir leikjahæstu leikmenn félagsins ásamt Gesti Gylfasyni.
Fótbolti.net
,,Þetta er með þeim ljúfari, það er eiginlega ekkert sætara en að vinna Grindavík á síðustu mínútunum," sagði Jóhann Birnir Guðmundsson leikmaður Keflavíkur eftir 2-1 sigur á Grindavík í kvöld.
,,Mér fannst þetta vera mjög sanngjarnt. Mér fannst við vera mun betri aðilinn í leiknum."
,,Ég held að við höfum fengið 6-7 dauðafæri í fyrri hálfleik og á löngum köflum í fyrri hálfleik komu þeir varla við boltann. Virkilega flottur leikur hjá okkur þannig séð en hrikalegt að nýta ekki þessi færi."
Fréttablaðið / Vísir
„Við erum búnir að vera í vandræðum á heimavelli í sumar en við náðum loksins heimasigri. Það var eitt lið á vellinum í fyrri hálfleik og skil ég ekki hvernig við vorum ekki búnir að klára þetta fyrr. Við héldum svo pressunni áfram og komumst verðskuldað yfir í seinni hálfleiknum. Það er þó alltaf hættuleg staða eins og kom í ljós," sagði Zoran.
„Ég er gríðarlega ánægður með karakterinn í liðinu en við gáfum ekkert eftir þegar þeim tókst að jafna . Leikmenn voru greinilega tilbúnir að leggja sig alla fram til þess að vinna leikinn og er ég því mjög sáttur í leikslok," bætti Zoran við.
„Við gerðum breytingar eftir jöfnunarmarkið og vildum við fá fljóta menn inn á völlinn. Það gekk eftir og gerði Magnús frábærlega í sigurmarkinu sem kláraði leikinn fyrir okkur," sagði Zoran Daníel Ljubicic, þjálfari Keflavíkur í leikslok.
Ómar 5, Viktor Smári 5, Jóhann Ragnar 6, Magnús Þór 5, Haraldur 6, Einar Orri 6, Arnór Ingvi 7 (Bojan Stefán -) , Frans 6, Sigurbergur 7, Jóhann Birnir 7 (Hilmar Geir -), Guðmundur 5 (Magnús Sverrir -).
Morgunblaðið / Mbl.is
Tölfræði getur látið lið líta vel út á pappírnum en leikir vinnast ekki á slíkum útreikningum og Keflvíkingar vita nú að tvö hálffæri eru ekki það sama og heilt færi, fullt af hálffærum nær ekki einu sinni að teljast sem mark. Það þurfti því varamanninn Magnús Sverri Þorsteinsson til að skora sigurmark á 88. mínútu til að vinna Grindvíkinga, 2:1, í Keflavík í gærkvöldi.
»Ég hef gert þetta áður og þjálfarinn setti smá pressu á mig með að gera út um leikinn, sem ég og gerði,« sagði Magnús Sverrir eftir leikinn og sendi þjálfaranum skýr skilaboð. »Ég hef ekki spilað nema einhverjar tvö hundruð mínútur í sumar og verð að viðurkenna að ég er ekki sáttur með það en ég svaraði vonandi einhverju kalli í dag. Annars fannst mér heilt yfir leikur okkar ágætur, við byrjum vel og áttum að vera búnir að gera út um leikinn í fyrri hálfleik en það er alltaf gaman að skora í blálokin og sigla sigri í hús.«
M: Ómar, Haraldur Freyr, Einar Orri, Jóhann Birnir, Guðmundur.
Víkurfréttir / VF.is
Þeir Arnór Ingvi Traustason og Sigurbergur Elísson hafa náð ansi vel saman og á tíðum í sóknarleik Keflvíkinga í sumar. Sú samvinna sýndi sig vel í fyrsta marki leiksins en þá brunaði Arnór með boltann frá miðju vallarinns og sendi svo fína sendinga á Sigurberg á hárréttum tíma og sá síðarnefndi átti ekki í vandræðum með að setja boltann framhjá Óskari í marki Grindvíkinga, 1-0 eftir klukkutíma leik. Þarna virtist sem björninn væri unninn en Grindvíkingar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp. Varamaðurinn Pape Mamadou Faye skoraði skömmu síðar með skalla eftir laglegan undirbúning hjá Magnúsi Björgvinssyni og Grindvíkingar komnir aftur inn í leikinn. Það var svo annar varamaður sem átti eftir að stela senunni en Keflvíkingurinn Magnús Sverrir Þorsteinsson sýndi gamalkunna takta þegar hann skoraði sigurmark leiksins.
Það voru aðeins tvær mínútur eftir af venjulegum leiktíma þegar Magnús fékk boltann við mijðu vallarins og tók á rás. Hann hafði samherja með sér beggja vegna en það var augljóst hvað Magnús ætlaði sér. Hann fór hreinlega alla leið og þrumaði boltanum niður í bláhornið þar sem Óskar Pétursson átti aldrei möguleika. Glæsilegt mark hjá Magnúsi.
433.is
Arnór Ingvi Traustason leikmaður Keflavíkur hefur slegið rækilega í gegn í sumar og þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið einn besti maður Pepsi deildarinnar.
Arnór átti frábæran leik fyrir Keflavík er liðið vann Grindavík 2-1 á heimavelli en sigurmarkið kom undir lok leiksins. Arnór er leikmaður umferðarinnar hér á 433.is.
,,Það er alltaf sætt að vinna Grindavík og hvað þá með marki á lokamínútunni," sagði Arnór við 433.is í dag. Það er búið að vera svolítið ströggl á okkur á heimavelli, það er loksins kominn sigur núna og vonandi heldur það áfram. Liðið var að spila mjög vel, við áttum að vera búnir að skora nokkur mörk í fyrri hálfleik en það gekk ekki eftir."
Arnór hefur ásamt fleiri ungum leikmönnum í Keflavík fengið mikla ábyrgð í sumar og þeir hafa staðið undir væntingum.
,,Það er mjög gaman að fá þessa ábyrgð sem við ungu leikmennirnir höfum fengið í sumar en þetta snýst bara um að gera vel fyrir liðið þá kemur allt hitt. Við erum búnir að afsanna spár um eitthvað slakt gengi, þetta er líka mikið af heimamönnum. Það voru tíu af ellefu í gær sem eru heimamenn, svo er þetta góð blanda af ungum og reyndum leikmönnum. Hópurinn er mjög þéttur. Móralinn í hópnum er mjög góður, þetta er mjög gaman þessa stundina."
Zoran Daníel Ljubicic þjálfari Keflavíkur hikaði ekki við að nota ungu leikmennina og það hefur borið árangur.
,,Zoran er búinn að vera með okkur frrá því í 3 flokki og hann þekkir okkur alveg í gegn og hikar ekkert við að henda okkur í djúpu laugina. Hann setti mikið traust á okkur og við þurftum bara að grípa það tækifæri og sanna okkur."
Arnór segist stefna á atvinnumennsku en hann og Sigurbergur Elísson fóru á reynslu hjá Sandnes Ulf í Noregi í sumar.
,,Auðvitað stefnir maður alltaf í atvinnumennsku en það kemur í ljós hvert maður getur farið. Það gekk mjög hjá Sandnes og þeir voru mjög ánægðir, það verður kannski eitthvað meira úr því. Þeir ætla að hafa samband aftur en hvað gerist veit ég ekki."
Ómar 7, Viktor Smári 6, Jóhann Ragnar 7, Magnús Þór 7, Haraldur 7, Einar Orri 6, Arnór Ingvi 9 (Bojan Stefán -) , Frans 8, Sigurbergur 7, Jóhann Birnir 8 (Hilmar Geir -), Guðmundur 8 (Magnús Sverrir -).
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 30. júlí 2012
Keflavík 2 (Sigurbergur Elísson 60., Magnús Þorsteinssion 89.)
Grindavík 1 (Pape Mamadou Faye 74.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Jóhann R. Benediktsson, Magnús Þór Magnússon, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Sigurbergur Elísson, Einar Orri Einarsson, Arnór Ingvi Traustason (Bojan Stefán Ljubicic 87.), Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Hilmar Geir Eiðsson 80.), Guðmundur Steinarsson (Magnús Sverrir Þorsteinsson 80.).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Grétar Atli Grétarsson, Denis Selimovic, Daníel Gylfason.
Gult spjald: Einar Orri Einarsson (69.)
Dómari: Þorvaldur Árnason.
Aðstoðardómarar: Áskell Þór Gíslason og Andri Vigfússon.
Eftirlitsdómari: Eyjólfur Ólafsson.
Áhorfendur: 705.
Myndir: Jón Örvar og Eygló.