Langþráður og mikilvægur sigur á Hlíðarenda
Eftir fjóra tapleiki í röð í Pepsi-deildinni vann Keflavík langþráðan sigur gegn Val á Hlíðarenda. Það var Ísak Örn Þórðarson sem gerði eina mark leiksins snemma leika. Eftir leikinn er Keflavík í 7.-8. sæti deildarinnar með 20 stig.
Næsti leikur er heimaleikur gegn Breiðablik fimmtudaginn 15. september kl. 17:15.
-
Leikurinn var 89. leikur Keflavíkur og Vals í efstu deild. Þetta var 30. sigur Keflavíkur, Valur hefur unnið 33 leiki en 26 hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 132-134 fyrir Val.
-
Ísak Örn Þórðarson lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í efstu deild og skoraði eftir aðeins 11 mínútna leik. Frans Elvarsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Keflavíkur í efstu deild.
-
Guðjón Árni Antoníusson lék sinn 150. leik fyrir Keflavík í efstu deild og er orðinn 10. leikjahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi. Næstir á listanum eru Ólafur Júlíusson með 151 leik og Jón Ólafur Jónsson með 154 leiki þannig að Guðjón ætti að færast áfram upp listann á næstunni.
-
Haraldur Björnsson varði vítaspyrnu Guðmundar Steinarssonar í fyrri hálfleik og er það fyrsta vítaspyrnan sem fer forgörðum hjá Keflavík í efstu deild síðan í ágúst 2009. Þetta var níunda vítaspyrnan sem fer í súginn hjá Guðmundi í efstu deild og hafa þær allar verið varðar þannig að pilturinn hittir þó markið. Áður höfðu Kristján Finnbogason (KR 2001), Valþór Halldórsson (KR 2002), Boban Savic (Grindavík 2005), Daði Lárusson (FH 2006), Kjartan Sturluson (Valur 2006), Bjarki Freyr Guðmundsson (Þróttur 2008) og Andre Hansen (KR 2009 - tvö víti) varið frá Guðmundi.
-
Keflavík hefur ekki tapað í síðustu tíu útileikjum gegn Val í efstu deild. Keflavík hefur unnið fjóra leikjanna en sex lokið með jafntefli. Síðasta útitap Keflavíkur gegn Val í efstu deild kom árið 1997 þegar Valur vann 2-1 en Eysteinn Hauksson gerði mark Keflavíkur í leiknum.
Fótbolti.net
Ísak Örn Þórðarson var hetja Keflvíkinga í 1-0 sigri liðsins gegn Val í Pepsi deildinni á Vodafone vellinum í dag. Ísak Örn skoraði eina mark leiksins og tryggði Keflvíkingum þrjú gríðarlega mikilvæg stig í botnbaráttunni.
,,Þetta var frábært. Ég bjóst eiginlega ekkert upphaflega við því að fá að spila þennan leik, ég er búinn að vera meiddur og er að koma mér inn í þetta aftur. Þetta var bara frábært að fá að setja hann þarna, hvað þá sigurmark," sagði Ísak við Fótbolta.net eftir leikinn.
,,Ég er mjög sáttur við frammistöðu liðsins í dag. Þetta var alger liðssigur, eins og markvarslan hjá Ómari þarna í lokin. Ef hann hefði ekki bjargað því þá hefðum við ekki fengið þrjú stig og ég hefði ekki skorað sigurmark. Þannig að ég var mjög ánægður með Ómar."
,,Þetta var virkilega mikilvægur sigur. Við ætlum bara að klára mótið af krafti og hala inn stigum. Við endum ofar en var búist við."
Fréttablaðið / Vísir
Keflvíkingar voru án Haraldar Freys Guðmundssonar sem farinn er til Start í Noregi. Einar Orri Einarsson tók stöðu hans í hjarta varnarinnar og stóð sig vel.
„Virkilega. Hann lék mikið sem miðvörður í vetur og hefur verið til vara í þeirri stöðu þannig að við vitum hvað hann getur. Við vissum að hann myndi leysa stöðuna sem hann og gerði í dag," sagði Willum.
Willum vildi ekki gefa út hve mörg stig hann teldi liðið þurfa til þess að bjarga sér frá falli.
„Það er hroðalegt ef maður fer í punktatalninguna því það tekur focusinn af því sem skiptir máli. Það eina sem ég get fullyrt er að þessari baráttu er ekki lokið."
Ómar 7, Guðjón Árni 6, Brynjar Örn 5, Adam 6, Einar Orri 7, Andri Steinn 5, (Arnór Ingvi 4), Jóhann Birnir 6 (Magnús Þórir -), Frans 5, Hilmar Geir 7, Guðmundur 5, Ísak Örn 6.
Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar stóðust álagið sem þeir voru undir þegar þeir gengu til leiks á Valsvelli í gær. Þegar flautað var til leiks vissu þeir að Fram hafði unnið Breiðablik og var þar með aðeins þremur stigum á eftir Keflvíkingum. Til þess að sogast ekki niður í fallbaráttuna urðu leikmenn Keflavíkur að krækja í þrjú stig, ekkert annað kom til greina. Og það tókst þeim með mikililli baráttu og vinnusemi, svo notuð séu orð þjálfara liðsins, Willum Þórs Þórssonar.
Á heildina litið var sigur Keflavíkinga sanngjarn. Þeir fengu lengst af að leika eins og þeir helst vilja. Þeir sóttu markið snemma og gáfu síðan skipulega eftir. Valsmenn voru í mestu vandræðum og voru hugmyndasnauðir lengst af.
M: Ómar, Guðjón Árni, Einar Orri, Adam, Hilmar Geir, Jóhann Birnir, Ísak Örn.
Víkurfréttir
Keflavík vann mikilvægan sigur á Val, 1:0, á Valsvellinum í dag í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, en sigurinn lyftir Keflavík aðeins upp út botnbaráttunni en þeir sitja nú í 7. sæti og eiga leik til góða í þokkabót.
Það var Ísak Örn Þórðarson sem skoraði eina mark leiksins á 11. míníutu en Keflvíkingar áttu reyndar möguleika á því að komast tveimur mörkum yfir á 20. mínútu en Haraldur Björnsson varði þá fremur slaka vítaspyrnu Guðmundar Steinarssonar.
Valsmenn voru sterkari aðilinn lengst af í fyrri hálfleik en þeir náðu ekki að færa sér það í nyt. Í síðari hálfleik var minna um að vera og Keflvíkingum tókst að halda forskoti sínu með skipulögðum leik og lönduðu þar með stigunum þremur.
Pepsi-deild karla, Vodafone-völlurinn, 11. september 2011
Valur 0
Keflavík 1 (Ísak Örn Þórðarson 11.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði, Brynjar Örn Guðmundsson, Adam Larsson, Einar Orri Einarsson, Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson (Magnús Þórir Matthíasson 77.), Andri Steinn Birgisson (Arnór Ingvi Traustason 63.), Hilmar Geir Eiðsson, Guðmundur Steinarsson, Ísak Örn Þórðarson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Ásgrímur Rúnarsson, Ómar Karl Sigurðsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Grétar Hjartarson.
Gul spjöld: Guðmundur Steinarsson (58.), Einar Orri Einarsson (60.), Frans Elvarsson (78.).
Dómari: Þorvaldur Árnason.
Aðstoðardómarar: Áskell Þór Gíslason og Magnús Jón Björgvinsson.
Eftirlitsdómari: Þórður Georg Lárusson.
Áhorfendur: 540.
Barátta við Keflavíkurmarkið.
Þakkað fyrir stuðninginn í leikslok.
Ísak Örn gerði sigurmarkið í sínum fyrsta leik.