Langþráður sigur á Sparisjóðsvellinum
Keflvíkingar sigruðu í fyrsta sinn á nýjum Sparisjóðsvellinum þegar þeir sigruðu Valsmenn í 20. umferð Pepsi-deildarinnar í gærkvöldi. Úrslitin urðu 3-1 í góðum leik okkar manna.
Jóhann Birnir Guðmundsson, Paul McShane og Ómar Karl Sigurðsson voru frá vegna meiðsla og Magnús Þórir Matthíasson tók út leikbann.
Keflavík byrjaði mun betur og þeir Hörður og Haukur komust í ágætis færi. En það var Andri Steinn sem skoraði glæsilegt mark á 16. mínútu með skoti utan teigs. Nokkrum mínutum síðar skoraði Hörður af stuttu færi eftir sendingu frá Hauk Inga. Okkar menn áttu fjölmargar hættulegar sóknir og komust næst því að bæta við marki þegar Guðmundur átti þrumuskot í slána. Valsmenn áttu einungis hálffæri og ógnuðu aldrei neitt að ráði.
Í seinni hálfleik byrjuðu Valsmenn betur og áttu skot í slá. Þeir fengu síðan ódýra vítaspyrnu sem Martin Pedersen skoraði úr. Keflavík svaraði af krafti og átti fín færi; Bjarni Hólm skallaði rétt yfir og Guðmundur átti hörkuskot rétt framhjá. Það var svo á 69. mínútu að Hörður skoraði sitt annað mark og þriðja mark Keflavíkur af stuttu færi eftir fína sókn. Keflavíkursigur staðreynd og liðið er í 7. sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.
Næsti leikur er gegn FH á Kaplakrikavelli sunnudaginn 19. september kl. 17:00.
-
Keflavík vann sinn 29. sigur gegn Val í efstu deild. Valur hefur sigrað í 32 leikjum og 26 hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 131-132, Val í hag.
-
Keflavík vann þriðja heimasigurinn í röð gegn Val í efstu deild. Í fyrra sigruðu okkar menn 3-0 og árið 2008 urðu lokatölurnar 5-3 í upphafsleik deildarinnar.
-
Andri Steinn skoraði fyrsta mark sitt fyrir Keflavík í sínum sjötta deildarleik.
-
Hörður Sveinsson er orðinn langmarkahæsti leikmaður Keflavíkur í Pepsi-deildinni í sumar en hann hefur nú skorað sex mörk. Hörður er kominn með 29 mörk fyrir félagið í efstu deild og er í 7. sæti yfir markahæstu leikmenn liðsins frá upphafi. Næst fyrir ofan er Jón Ólafur Jónsson með 31 mark og síðan er nokkuð langt í Þórarinn Kristjánsson með 48 mörk.
-
Magnús Þór Magnússon kom inn á sem varamaður og lék sinn fyrst leik í sumar.
-
Keflavík tókst loksins að sigra á "nýja" Sparisjóðsvellinum, í sjöttu tilraun. Áður hafði liðið gert þrjú jafntefli og tapað tveimur leikjum.
-
Keflavík skoraði í fyrsta skipti í sumar þrjú mörk í leik. Síðast skoraði liðið fleiri en tvö mörk í leik í lokaumferðinni í fyrra þegar ÍBV lá 6-1 á Sparisjóðsvellinum.
-
Þó að liðið sé um miðja deild er ljóst að Keflavík mun ráða miklu um hvar Íslandsbikarinn endar í ár. Í næstsíðustu umferðinni leikum við gegn FH sem er í 3. sæti deildarinnar og í síðustu umferðinni leikum við heima gegn ÍBV sem nú er í 2. sæti.
Fótbolti.net
Guðjón Árni Antoníusson var glaður í bragði eftir góðan sigur á Val í dag.
,,Mér fannst þetta sanngjarnt og loksins kom sigur á heimavelli, nýja Sparisjóðsvellinum. Mjög langt síðan við höfum fengið þrjú stig og það er ekkert eins gaman og að vinna. Þetta er búið að vera leiðinlegt hjá okkur að vinna ekki leik svona lengi"
Guðjón Árni og Jón Vilhelm Ákason áttust við inni teig sem varð til þess að Valsmenn fengu vítaspyrnu. Hvað gekk á þar?
,,Ég allavegana braut ekki á honum. Eina sem ég uppskar var olnbogaskot frá Jóni Vilhelm, óvart reyndar en ég fékk hamar á varirnar og lá óvígur eftir".
Fréttablaðið / Vísir
Það var allt annað að sjá til Keflvíkinga en leikmenn liðsins voru rólegir og yfirvegaðir í öllum sínum aðgerðum sem skilaði þeim öllum stigunum sem í boði voru.
Það hefur oftar en ekki gerst í sumar að þegar Keflvíkingar fá á sig mark þá missa þeir einbeitinguna og hætta að spila sinn leik. Willum Þór Þórsson, þjálfari liðsins, hefur greinilega brýnt það fyrir sínum mönnum að láta ekki slíka hluti á sig fá og halda áfram sinni spilamennsku.
Heimamenn hreinlega efldust við það að fá á sig mark og tóku öll völd á vellinum í framhaldinu. Á 71.mínútu leiksins kom Hörður Sveinsson, Keflavík í 3-1 með mjög svipuðu marki og hann skoraði í fyrri hálfleiknum. Guðmundur Steinarsson átti þessa líka frábæru fyrirgjöf sem rataði beint á Hörð og eftirleikurinn auðveldur.
Ómar 7, Guðjón 7, Alen 7, Bjarni 7, Haraldur 6, Andri Steinn 7, Hólmar Örn 7, Hörður 8 (Magnús Þór -), Brynjar 6 (Einar Orri -), Guðmundur 8, Haukur Ingi 8 (Arnór Ingvi -).
Morgunblaðið / Mbl.is
"Loksins loksins", heyrðist úr stúku þeirra heimamanna eftir leik og ekki nema von. Keflavíkurliðið sýndi svo sannarlega hvað í því býr en því miður er þetta allt of seint í rassinn gripið.
Haukur Ingi virkar sem vítamínsprauta á liðið og átti hann frábæran fyrri hálfleik en eitthvað dró af kappanum í þeim seinni. Það má með sanni segja að Haukur er eitthvað sem hefur vantað í formúlu liðsins í sumar. Hraður framherji sem skapaði gríðarlegan usla í vörn Valsmanna með sprettum fram á við sem hefði fengið jafnvel Usain Bolt til að roðna.
MM: Guðmundur.
M: Alen, Haraldur, Andri Steinn, Hörður, Haukur Ingi.
Víkurfréttir /VF.is
Leiknum lauk með 3-1 sigri Keflvíkinga og er það fyrsti sigur þeirra í síðustu sex leikjum og jafnframt fyrsti sigur þeirra á nýja grasinu á Sparisjóðsvellinum. Keflvíkingar voru mjög hressir í leiknum, sóttu stíft og báru höfuð og herðar yfir andstæðinga sína.
Pepsi-deild karla, Sparisjóðsvöllurinn, 16. september 2010
Keflavík 3 (Andri Steinn Birgisson 16., Hörður Sveinsson 21., 69.)
Valur 1 (Martin Pedersen víti 51.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Hörður Sveinsson (Magnús Þór Magnússon 88.), Andri Steinn Birgisson, Hólmar Örn Rúnarsson, Brynjar Örn Guðmundsson (Einar Orri Einarsson 71.), Guðmundur Steinarsson, Haukur Ingi Guðnason (Arnór Ingvi Traustason 71.)
Varamenn: Lasse Jörgensen, Viktor Smári Hafsteinsson, Bojan Stefán Ljubicic, Magnús Sverrir Þorsteinsson.
Dómari: Einar Örn Daníelsson.
Aðstoðardómarar: Smári Stefánsson og Viðar Helgason.
Eftirlitsdómari: Þórður Georg Lárusson.
Áhorfendur: 426.
Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir.
Hörður fagnar fyrra marki sínu.

Andri Steinn skorar fyrsta markið með þrumuskoti.