Fréttir

Langþráður sigur í höfn
Knattspyrna | 8. júní 2015

Langþráður sigur í höfn

Keflavík vann langþráðan sigur þegar fyrsti sigur sumarsins í Pepsi-deildinni leit dagsins ljós í 7. umferðinni.  Okkar menn unnu góðan 3-1 sigur á ÍBV á Nettó-vellinum en Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson stjórnuðu liðinu í fyrsta sinn.  Það var Hörður Sveinsson sem kom okkar mönnum yfir á 19. mínútu en Jonathan Glenn jafnaði með marki úr vítaspyrnu eftir hálftíma leik.  Staðan í hálfleik var 1-1 en Keflavík var sterkara í seinni hálfleik og gerði út um leikinn með tveimur mörkum.  Fyrst skoraði Einar Orri Einarsson á 60. mínútu og Leonard Sigurðsson tryggði sigurinn með marki um tíu mínútum fyrir leikslok.  Eftir leikinn er Keflavík enn í neðsta sæti deildarinnar en nú með fjögur stig eins og ÍBV.

Næsti leikur er heimaleikur gegn Val sunnudaginn 14. júní kl. 19:15.

Leikskýrsla á KSÍ.is

Myndir frá leiknum

  • Þetta var 70. leikur Keflavíkur og ÍBV í efstu deild.  Þetta var 29. sigur Keflavíkur en ÍBV hefur unnið 28 leiki og 13 hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 108-112 fyrir ÍBV.
     
  • Hörður Sveinsson skoraði annað mark sitt í sumar og 54. markið fyrir Keflavík í efstu deild.  Þetta var sjöunda mark Harðar gegn ÍBV í deildinni.
     
  • Einar Orri Einarsson gerði fyrsta mark sitt í sumar og sjötta mark sitt í efstu deild.  Þetta var annað mark hans gegn ÍBV en Einar Orri skoraði í 4-2 sigri á Nettó-vellinum árið 2013.
     
  • Leonard Sigurðsson skoraði fyrsta mark sitt í efstu deild í sínum þriðja leik í deildinni.  Leonard er fæddur árið 1996 og varð 19 ára í vor.  Hann lék sinn fyrsta leik í efstu deild í fyrra og á einnig að baki nokkra leiki með Njarðvík í 2. deildinni.
     
  • Sindri Kristinn Ólafsson kom inn í byrjunarliðið og lék í fyrsta sinn í sumar.  Richard Arends gat ekki tekið þátt vegna meiðsla og var Stefán Guðberg Sigurjónsson því á bekknum og var í fyrsta sinn í leikmannhópi í efstu deild.
     
  • Haukur Ingi Guðnason stýrði Keflavík ásamt Jóhanni Birni Guðmundssyni.  Faðir hans Guðni Kjartansson þjálfaði Keflavík hluta tímabilanna 1975, 1976 og 1978 auk þess að stjórna liðinu 1981 og 1983.  Þess má geta að þeir eru ekki einu feðgarnir sem hafa þjálfað Keflavík.  Albert Guðmundsson stýrði liðinu seinni hluta tímabilsins árið 1960 og Ingi Björn sonur hans var með liðið árið 1994 en hætti eftir nokkra leiki.

Myndir: Jón Örvar Arason