Leikið gegn ÍBV í úrslitakeppninni
Nú er ljóst að andstæðingar okkar í úrslitarimmunni um laust sæti í úrvalsdeild kvenna verða ÍBV. Þær sigruðu í B-riðli 1. deildar með því að sigra Selfoss 6-0 í síðasta leik riðilsins. ÍBV vann því riðilinn og Selfoss hafnaði í 2. sæti. Okkar lið varð í 2. sæti A-riðils þar sem Þróttur R. sigraði og leikur gegn Selfyssingum í undanúrslitunum.
Fyrri leikur okkar við Eyjastelpur verður á Sparisjóðsvellinum laugardaginn 28. ágúst kl. 14:00. Síðari leikurinn verður síðan úti í Eyjum miðvikudaginn 1. september kl. 17:30. Það er ljóst að krefjandi verkefni er framundan og stelpurnar þurfa á öllum þeim stuðningi að halda sem völ er á. Við viljum því hvetja alla þá sem áhuga hafa á knattspyrnu að mæta á völlinn og hvetja okkar stelpur til sigurs. Þær eiga það svo innilega skilið. Áfram Keflavík.